140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, svo virðist vera að það hafi gleymst svolítið í umræðunni að stjórnarskráin er grundvallarlög okkar og henni á að vera erfitt að breyta. Mér finnst mjög frjálslega farið með þær staðreyndir í þessari umræðu.

Stjórnarskrá er æðsta plagg hvers ríkis og þess vegna verður að vanda mjög þessa vinnu í þinginu og mér finnst menn umgangast þetta mál af nokkurri léttúð. Hér er til dæmis ekki nokkur einasti stjórnarliði til að ræða þessi mál við okkur. Ráðherrarnir hafa ekki sést um langa hríð þrátt fyrir að þetta sé helsta baráttumál hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Því verður að halda til haga að mínu mati að þetta verði að vanda, þetta verði að vera gert í sem mestri sátt, bæði við þing og þjóð, en ekki er verið að fara með málið í þá átt núna þegar þetta er lagt svona fram.

Nú er loksins búið að fá lögfræðiteymi til að lesa þessar tillögur yfir og skrifa nýja greinargerð. Hvað telur þingmaðurinn að sá lögfræðihópur geti farið langt út fyrir tillögur stjórnlagaráðs án þess að um nýjar tillögur verði að ræða? Þessar tillögur hafa verið mjög gagnrýndar af lögmönnum og sérfræðingum á öllum sviðum lögfræðinnar, umhverfisréttar, auðlindaréttar, stjórnskipunarréttar o.s.frv. Þessi þjóðaratkvæðagreiðsla er náttúrlega orðin alveg úrelt nú þegar en er einhver hætta á því að þessi nefnd breyti tillögunni svo mikið (Forseti hringir.) að um nýtt plagg verði hreinlega að ræða? Þá værum við komin með þriðju bókina við hlið stjórnarskrárinnar, tillögur stjórnlagaráðs og síðan nefndarinnar.