140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í stuttri ræðu minni í gær var ég byrjaður að fara yfir breytingartillögur sem ég hef lagt fram við tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég var búinn að fara yfir hina fyrstu af tillögunum þremur en mér vannst ekki tími til að fara yfir hinar og ætla núna að gera það stuttlega. Þó að ég hafi reyndar komið aðeins inn á þær í andsvörum þarf ég að fara aðeins betur yfir þá hugsun sem er að baki.

Allar eru þessar tillögur lagðar fram eftir að 1. flutningsmaður þeirrar tillögu sem hér er til umræðu útskýrði að ástæðan fyrir því að spurningarnar væru jafnóljósar og raun ber vitni væri sú að hér væri fyrst og fremst verið að kanna hug almennings til þeirrar hugmyndafræði sem ætti að liggja að baki ritunar stjórnarskrár. Þá finnst mér ekki annað hægt en að spyrja um grundvallaratriðin, á hvaða grundvallaratriðum sú hugmyndafræði eigi að byggjast. Þetta eru spurningar sem ég hefði talið að hefði kannski ekki þurft að spyrja við þessa vinnu fyrir ekki svo mörgum árum því að þetta væru hlutir sem menn væru almennt sammála um þegar kæmi að því að gera breytingar á stjórnarskrá. Það hefur reynslan sýnt af umræðu um stjórnarskrána í þinginu. En nú er annað upp á teningnum.

Nú hefur því verið haldið fram af allmörgum stjórnarliðum að þeir þættir sem ég taldi grundvallaratriði þegar kæmi að breytingum á stjórnarskrá ættu ekki endilega lengur við, hefðu kannski aldrei átt við. Til að rifja upp fyrstu breytingartillöguna áður en ég kynni seinni tvær er hún svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Eiga breytingar á stjórnarskrá að miða að því að um hana verði sem víðtækust sátt?“

Hún er að sjálfsögðu lögð fram vegna þess að við höfum heyrt í umræðunni að stjórnarskráin þurfi ekki endilega að vera öllum þóknanleg, hún sé spurning um að ákveðin hugmyndafræði verði ofan á og ríkisstjórnin nýti þá tækifærið sem henni gefst á meðan hún hefur meiri hluta til að knýja á um vilja sinn í stjórnarskránni.

Þá að seinni breytingartillögunum tveimur. Önnur þeirra hljóðar svo:

„Er mikilvægt að ákvæði stjórnarskrár Íslands séu auðskiljanleg?“

Þetta er annað atriði sem maður hefði kannski talið nánast sjálfgefið, en eins og við höfum heyrt í mörgum ræðum um þetta mál og í umræðu um stjórnarskrárbreytingarnar í fjölmiðlum og fundum síðustu missirin, eru ekki allir sammála um að þetta sé grundvallaratriði. Sumir telja eðlilegt að stjórnarskrá lýsi því hvernig menn vilja að aðstaða borgaranna sé án þess að útlista endilega skilmerkilega hvernig menn ætla að ná fram þeim vilja. Til að sjá hversu ólíkur skilningur manna er á til að mynda þeim tillögum sem hafa verið mest til umræðu, tillögum stjórnlagaráðs, má vísa í ræðu forseta Íslands við þingsetningu í október í fyrra þar sem forseti Íslands lýsti skilningi sínum á tillögum stjórnlagaráðs og í kjölfarið hófust miklar umræður um það hvort skilningur forsetans væri réttur eða hvort hann hefði farið algjörlega út um víðan völl í túlkun sinni á stjórnarskránni. Menn höfðu vægast sagt mjög ólíkar skoðanir á því, það má segja að það hafi verið 180° munur þar á og það var ágætisáminning um mikilvægi þess að ákvæði stjórnarskrár séu auðskiljanleg. Þess vegna legg ég fram þessa breytingartillögu. Ég geri ráð fyrir að menn hafi áfram ólíkar skoðanir á þessu en þá hlýtur að vera sjálfsagt mál að leyfa almenningi að segja álit sitt á því. Þá hefur almenningur tækifæri til að senda þinginu skilaboð um hvort það eigi að grundvalla breytingar á stjórnarskrá á því að ákvæðin séu auðskiljanleg eða hvort það teljist ásættanlegt að hafa þar ákvæði sem menn geti túlkað á ólíkan hátt. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Ég náði ekki að fara yfir þriðju tillöguna. Ég verð að fá að gera það við annað tækifæri.