140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann um nokkuð sem kemur fram í þessum fimm aukaspurningum sem lagðar eru fram af hálfu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og það snýr að jöfnun atkvæðaréttar. Án þess að ég ætli að draga mikið inn í þá umræðu jöfnun á öðrum möguleikum íbúa landsbyggðarinnar á ákveðinni grunnþjónustu eða eitthvað svoleiðis vil ég spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái það fyrir sér. Segjum sem svo að þetta yrði samþykkt og það yrði farið í að jafna atkvæðaréttinn. Getur þá hv. þingmaður verið sammála mér um að það væri ekki hægt að sjá það gerast með öðrum hætti en þeim að ef þessi leið er farin væri eðlilegast að stíga skrefið lengra og segja: Við skulum þá bara gera landið að einu kjördæmið? Ellegar tækjum við kjördæmaskipanina alla upp frá því sem hún er núna. Að mínu viti gengur ekki að hafa kjördæmaskipan óbreytta og jafna atkvæðaréttinn. Sér hv. þingmaður það fyrir sér og getur hann tekið undir þá skoðun mína að það væri þá æskilegt að stíga skrefið til fulls og gera landið að einu kjördæmi? Öðruvísi er þetta nánast óframkvæmanlegt.

Hv. þingmaður kom líka inn á það í ræðu sinni að auðvitað eru þessar spurningar mjög óljósar og þá sérstaklega fyrsta spurningin sem snýr að því hvort eigi að leggja til grundvallar þær tillögur stjórnlagaráðs sem koma fram í skýrslunni. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hefði ekki talið eðlilegra að þingið tæki umræðu um skýrslu stjórnlagaráðs, setti það til hliðar sem menn væru alveg sammála um og tækju afmarkaðri kafla þar sem væri kannski öðruvísi sýn þingsins á tillögurnar og færu þar af leiðandi með markvissari spurningar til að vera leiðbeinandi inn í vinnuna við framhaldið sem verður þá næsta vetur.