140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég byrji á því að klára fyrra andsvar mitt hafa ýmis rök verið fyrir því að hafa fyrirkomulagið eins og það hefur verið þannig að atkvæðin gildi jafnt hvað varðar flokkana en hins vegar veljist hlutfallslega fleiri fulltrúar af landsbyggðinni sem fulltrúar þeirra flokka.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um það hvort þá liggi beinast við að gera landið að einu kjördæmi ef menn vilja líka ná fullkomnu jafnvægi í því hvaðan menn koma held ég að það væri mjög hættuleg leið eins og kosningin til stjórnlagaþings sýndi. Þar fór þetta í þveröfuga átt. Þar voru, ef ég man rétt, aðeins tveir fulltrúar af landsbyggðinni kjörnir á þingið og þar með hallaði verulega á landsbyggðina. Það að hafa landið sem eitt kjördæmi er ekki til þess fallið að ná því jafnvægi sem sumir hafa kallað (Forseti hringir.) eftir hvað varðar atkvæðavægi.