140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðu hans og innlegg almennt í stjórnarskrárumræðuna sem slíka, ekki bara þingsályktunartillöguna um skoðanakönnunina sem ríkisstjórnin ætlar að láta fara fram. Ég vil spyrja hann um ákveðið atriði í tengslum við þær spurningar sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur sett fram. Það varðar þriðju spurninguna þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

Hvaða vegferð erum við að leggja þarna upp í? Er búið að ræða þetta nóg að mati hv. þingmanns? Ég tel að mjög ákveðin skref hafi verið tekin með það að markmiði að skilja betur að ríki og kirkju með samningnum sem var gerður á milli ríkis og kirkju árið 1996 þar sem farið var í mun meiri aðskilnað. Menn tala oft og tíðum eins og þeir viti ekki af þeim aðskilnaði. Ég vil gjarnan fá að vita viðhorf og sjónarmið hv. þingmanns um það að taka þjóðkirkjuna út. Telur hann nægilega mikla umræðu hafa átt sér stað um það hvernig samfélag við byggjum upp, um trúfrelsi og það hvaða stöðu kristnin, ekki bara þjóðkirkjan heldur kristnin, hefur á menningu, sögu og framtíð íslensku þjóðarinnar?

Það væri gott að fá viðhorf hv. þingmanns til breytingartillögu minnar um þetta mál. Ég hef komið, eins og fleiri góðir þingmenn, með fleiri fyrirspurnir inn í þetta þingskjal. Ég spyr og vil gjarnan fá viðhorf þingmannsins: Er hann sammála mér í þeim efnum að leggja fram spurningu um hvort það eigi að fækka þingmönnum úr 63 í 51?