140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þótt hv. þingmaður bendi á að breytingartillögur mínar séu allsérstakar vona ég að hv. þingmaður telji þær ekki jafnsérstakar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Tillögur mínar eru einmitt tilraun til að gera sem best úr þeim sérkennilegu tillögum sem kalla á að spurt sé þeirra spurninga sem ég legg fram sem breytingartillögur.

Hvað varðar spurningu þingmannsins um álit mitt á þeim vinnubrögðum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur staðið fyrir í þessu máli og felast meðal annars í því að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu á meðan sérfræðingar eru að fara yfir það er það náttúrlega eitt af mörgum dæmum sem lýsir fáránleika þessa máls. Ég fór yfir það áðan að þetta mál, sem er upprunnið hjá Hreyfingunni, hefði komið mjög skyndilega inn í þingið eftir að hafa legið í dvala mánuðum saman þannig að allir frestir sem getið var um í tillögunni voru útrunnir. Maður gat ekki annað en velt fyrir sér hvers vegna það væri og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé sammála mér um að það hljóti að blasa við að það sé gert vegna veikrar stöðu ríkisstjórnarinnar, þ.e. til að afla stuðnings Hreyfingarinnar en hafi mjög lítið með innihaldið að gera.

Þegar menn fara út í það að leggja fram tillögur sem snúast ekki um innihaldið heldur að kaupa sér fylgi nokkurra þingmanna er alltaf hætta á því að vinnubrögðin verði í líkingu við það sem við sjáum hér þó að þetta sé líklega einhvers konar met hvað það varðar. Og þegar menn eru komnir af stað á þessa braut gallaðra vinnubragða og farnir að þurfa að rökstyðja það og réttlæta á hverju stigi lenda menn ósjálfrátt í því að búa til sífellt nýjar flækjur og vinnubrögðin í framhaldinu verða alltaf verri og verri. Við tekur rökstuðningur sem er æ lakari og þannig heldur keðjuverkunin áfram. Þetta mál er komið býsna langt á þeirri braut.