140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál er komið býsna langt á þeirri braut, segir hv. þingmaður, en þó er heilmikið eftir. Hvað telur þingmaðurinn til dæmis að gerist þegar og ef af þessari skoðanakönnun verður? Þá fyrst byrjar ballið. Hvernig á að túlka niðurstöðurnar? Hversu margir mæta á kjörstað? Hversu hátt hlutfall þeirra svarar: Já, ég vil leggja þessar tillögur til grundvallar? Eða: Nei, ég vil það ekki? Svo svara kjósendur með því innbyrðis ósamræmi sem er fólgið í því að spyrja um einstök efnisatriði. Hvernig á að vera hægt að túlka niðurstöðu með einhverjum hætti og tala um það sem vilja þjóðarinnar, að leyfa þjóðinni að fá þetta samtal? Það væri ágætt, fyrst við erum að tala um samtal, að við ættum samtal við stuðningsmenn og andmælendur þessarar tillögu. En það er ekki og þess vegna spyr ég hv. þingmann sem lýsti því svo ágætlega að þetta væri (Forseti hringir.) búin að vera saga mistaka: (Forseti hringir.) Hvernig endar þetta? Hvernig telur þingmaðurinn að túlkuninni (Forseti hringir.) verði háttað eftir öll þessi ósköp?