140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Eins og ég kom að í lok síðustu ræðu minnar var margt eftir og enn á eftir á að ræða margt í tengslum við þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að efnt verði til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Menn hafa farið vel í gegnum ýmsar spurningar en ég vil hins vegar benda á að ekki hefur verið rætt mikið um þá spurningu sem er lögð fram í 3. tölulið í breytingartillögu frá hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

Hér var verið að ræða um samtal áðan. Ég hefði gjarnan viljað eiga samtal, a.m.k. fá upplýsingar frá þeim sem sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um það af hverju þessi eðlisbreyting varð á frumspurningunni í þingsályktunartillögunni yfir í þessa breytingartillögu.

Nú ætla ég að leyfa hæstv. forseta að heyra muninn á þessum spurningum Í upphaflegu tillögunni er spurningin eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er? Já. Nei. Tek ekki afstöðu.“

Ef menn segja nei við þessu geta menn túlkað það svo að nei þýði ekki að þjóðkirkjunni verði alfarið ýtt út úr stjórnarskránni, nei getur þýtt að við viljum umræðu, að við viljum ekki hafa þetta óbreytt en það þýðir ekki að við viljum ekki hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni. En núna er breytingin í þessari breytingartillögu með þeim hætti sem ég las upp áðan, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

Nei-ið er alveg skýrt í þessu svari, nei, þýðir bara að við viljum ekki hafa neitt ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni.

Ég sakna þess að eiga ekki tækifæri á því að eiga samtal við þá sem skrifa undir þessa breytingartillögu, meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, fyrir utan að mínu mati þá vanvirðingu sem sá meiri hluti ásamt meiri hluta þingsins — þá er ég að tala um Hreyfinguna líka því að hún tilheyrir stjórnarmeirihlutanum — sýnir þegar þau eru ekki reiðubúin til að ræða við okkur sem hér erum um stöðu þjóðkirkjunnar, hvert við erum að fara með því að setja fram spurningar þessa eðlis og af hverju þessi breyting átti sér stað því að þetta er eðlisbreyting. Þetta er mikil breyting sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur sett fram í tengslum við þessa spurningu.

Ég tel spurninguna neikvæðari eins og hún er orðuð núna og þótt það standi ekki beint finnst mér hún bera keim þess að ýtt sé undir þá gagnrýni sem kirkjan hefur legið undir á umliðnum árum, kannski ekki endilega gagnrýni að ósekju alltaf en oft hefur gagnrýnin verið óbilgjörn að mínu mati og helgast af því að aðrir vilja koma öðru að en bara þjóðkirkjunni í tengslum við trú, trúfrelsi og fleira.

Það er engin tilviljun að þar sem kristnin hefur verið grundvöllur stjórnskipulags ríkir hvað mest trúfrelsi. Ég minnist þess ekki að nokkurs staðar í heiminum sé trúfrelsi jafnvíðtækt og á þeim stöðum þar sem kristnin hefur verið lögð til grundvallar. Vissulega er hægt að sjá til dæmis á ákveðnum menningarsvæðum í Afríku, á ákveðnum svæðum í Asíu, víðtækt trúfrelsi sem ber að fagna, en ef við skoðum til dæmis Evrópu og ákveðinn hluta Asíu, Ameríku, sjáum við að trúfrelsi fer iðulega saman við þann grundvöll sem kristnin hefur gefið fólki.

Ég sakna þessarar umræðu um kristnina, um þjóðkirkjuna, því að ekki verður slitið þarna á milli. Það hefur oft verið þannig — ég man að þegar ég skrifaði grein á sínum tíma í Pressuna þar sem yfirskriftin var „Við erum kristin þjóð“ gengu margir af göflunum í pósti sem ég fékk eftir þá grein að ég skyldi leyfa mér að halda því fram og viðurkenna það að við værum kristin þjóð. Ég geri það ófeimin en ég hefði gjarnan viljað taka einmitt slíka umræðu við þá þingmenn sem allt vita hér innan þingsalarins og svo sjaldan sjást hér, ekki síst í tengslum við þessa umræðu.

Ég sakna þess að geta ekki tekið alvöruumræðu meðal annars um þetta atriði og ýmis önnur atriði í tengslum við þessa þingsályktunartillögu sem ætlast er til að kjósendur taki afstöðu til, (Forseti hringir.) afstöðu sem í besta falli verður afar óljós og sett verður í hendurnar á stjórnmálamönnum sem geta túlkað þá niðurstöðu að eigin geðþótta.