140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð þingmannsins þegar hún talar um að hér sé mikill misskilningur á ferðinni. Hér er keyrður einhver spuni, sem birtist einmitt í þeim fjöldapóstsendingum sem við þingmenn erum að fá, og það er búið að koma því inn að þessi atkvæðagreiðsla eigi að snúast um kosningu um stjórnarskrá. Þetta er með ólíkindum að fjölmiðlar skuli ekki grípa inn í og leiðrétta þennan misskilning og segja sannar fréttir af þessu máli. Þetta er hreint með ólíkindum.

Við erum að ræða þessi mál í þinginu, og sem betur fer horfa margir á þingrásina, en svona er hægt að keyra bullið og spunann og blekkja fólk með fullyrðingum sem eru ekki réttar. Ég hef bent á að hér situr ekki nokkur einasti hæstv. ráðherra í umræðunni í dag og ekki í gær, þeir láta ekki sjá sig hér í húsi. Það er fullkomið ábyrgðarleysi af ríkisstjórninni að fara fram með málið með þessum hætti.