140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Fáir þingmenn hafa bent á einmitt þennan óskýrleika, sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gerði, í spurningum frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hvað er verið að bjóða kjósendum upp á þegar spurt er? með leyfi forseta:

„Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? — Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.“

Hvað þýðir þetta? Er þetta bara einhver konfektkassi fyrir ríkisstjórnina?

Það er þetta sem ég á við þegar ég segi að verið sé að slá ryki í augu kjósenda með því að bjóða upp á svona plagg. Fyrst ríkisstjórnin velur, með Hreyfinguna í broddi fylkingar, að fara þessa leið, reynið þá í guðanna bænum að hafa spurningarnar skýrar þannig að það verði ekki bara undir ríkisstjórninni komið hvað verður tekið inn í stjórnarskrána og hvað ekki, það verði ekki undir Hreyfingunni komið, af öllum flokkum, hvað verður sett inn í stjórnarskrána. Þetta er hættulegt. Þetta er hættulegt lýðræðinu og þetta er vont fyrir stjórnarskrána.