140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að hv. þingmaður hafi hitt naglann á höfuðið hvað þetta varðar. Ég sagði áðan að við sjálfstæðismenn viljum sjá breytingar á stjórnarskránna, svo það sé alveg skýrt. Okkur greinir sérstaklega á um aðferðafræðina í þessu máli. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að þessi þingsályktunartillaga er til umræðu og þá hef ég skoðun á því hvernig hún er sett fram og hvaða spurningar eru settar fram af hálfu þingsins til að ná fram raunverulegri afstöðu kjósenda. Raunveruleg afstaða kjósenda mun ekki koma fram með þessu plaggi. Þetta er bara yfirklór. Þetta er nákvæmlega eins og hv. þingmaður segir, það er einfaldlega verið að færa hæstv. ríkisstjórn konfektkassa upp í hendurnar, svo velur hún bara það sem hentar henni og hennar bitar munu ekkert endilega falla öllum öðrum vel í kramið.

Mér finnst synd að sjá þetta tækifæri vera vannýtt með þeirri leið sem ríkisstjórnin er að fara og ríkisstjórnarflokkarnir með stuðningi frá Hreyfingunni. Mér finnst vont að ekki sé hægt að tala skýrar. Ég tel til dæmis að mín spurning um fækkun þingmanna, sem m.a. var mikið rædd á sínum tíma hjá stjórnlagaráðinu, sé alveg skýr: Á að fækka þingmönnum úr 63 í 51? Já eða nei. Það velkist enginn í vafa um hvert svarið er, ef það er já eða nei. Hér er hins vegar boðið upp á afar loðna túlkun ef niðurstaðan verður ekki ákveðnum stjórnmálaöflum sérstaklega í hag eða í vil eða eftir þeirra stefnuskrá.

Já, ég tel að þetta sé hættan við þessa leið. Ég tek undir með hv. þm. Lilju Mósesdóttur að ýmsar tillögur um breytingu á þessu hafa komið fram en þær eru ekki ræddar. Af hverju ekki? Af hverju er ekki reynt að ná sátt, a.m.k. í þessari leið? Við ræðum þetta (Forseti hringir.) ítrekað fram og til baka, en menn vilja ekki ræða tillögur frá stjórnarandstöðunni, og ég spyr: Af hverju?