140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svar hv. þingmanns sem staðfesti skilning minn á máli hennar.

Af því hv. þingmaður nefndi breytingartillögu sína um fækkun þingmanna vildi ég gjarnan heyra skýringar hv. þingmanns á hugsuninni á bak við þá tillögu. Hv. þingmaður leggur til að þingmönnum verði fækkað um 12. Ég er í sjálfu sér alveg sammála því að það væri skynsamlegt, a.m.k. ef fækkað yrði um réttu 12 þingmennina. En hver er hugsunin almennt með því að fækka þingmönnum úr 63 í 51? Er það til að spara laun þingmanna? Er þá viðbúið að þyrfti að ráða fleira starfsfólk í staðinn? Ég er ekki að lýsa mig andsnúinn þessari tillögu, ég er bara að velta fyrir mér ástæðunni fyrir því að hún er lögð fram.