140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur að lesa þyrfti yfir þær breytingartillögur sem hér eru til umræðu. Ég vil minna á, og ég hef farið yfir það í ræðum, að ég tel vinnulagið í þessu máli ekki ná nokkurri átt og það vinnulag sem nú er lagt til nær heldur ekki nokkurri átt, að undanskildu því að meiri hlutinn hefur nú loksins opnað augu sín fyrir þeim rökum sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt fram fyrir því að fá lögfræðilegan yfirlestur á þessu. Málið var til dæmis svo illa unnið í upphafi, þegar tillaga kom fram í þinginu um að fara með tillögur stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningum, að búið er að endurskrifa þá þingsályktunartillögu með breytingartillögunum hér. Málið var svo illa unnið að þegar landskjörstjórn fékk það til yfirlestrar gerði hún svo margar og alvarlegar athugasemdir við þingskjalið að það þurfti að kollvarpa því og breyta. Nú er komið fram nýtt þingskjal þar sem er breytingartillaga við hverja einustu spurningu.

Þetta sýnir hvað málið er unnið í miklu hasti og hvað þetta er mikil handarbakavinna. Það virðist ekki vera nokkur einasti áhugi hjá ríkisstjórnarflokkunum að vanda til verka í þessu máli. Vinnulagið er með þeim hætti að það er náttúrlega ekki boðlegt löggjafarþinginu og hvað þá heldur stjórnarskrárgjafanum sem eru við þingmenn.

Þetta liggur svona. Hér er keyrður mikill spuni, þess krafist að þjóðin fái að segja álit sitt á tillögum stjórnlagaráðs, en því miður gengur þessi þjóðaratkvæðagreiðsla ekki út á það. Í fyrstu spurningunni er spurt hvort leggja eigi tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. En það vill nú svo óheppilega til, frú forseti, að áætluð verklok hjá lögfræðiteyminu sem hefur verið fengið til að lesa yfir þessi drög að frumvarpi og breyta greinargerðinni, eru í byrjun september þegar þing kemur saman. Þjóðaratkvæðagreiðslan á ekki að fara fram fyrr en í lok október. Það er því alveg augljóst hvað hér er um að vera. Þetta er friðþæging, og ástæðan fyrir henni blasir við. Það er búið að kaupa stuðning Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina, en þjóðaratkvæðagreiðslan kostar litlar 250–300 milljónir. Þessar tillögur eru nú þegar orðnar úreltar vegna vinnu sérfræðihópsins. Ef frumvarp að stjórnarskipunarlögum kemur fyrir þingið í byrjun næsta þings, sem hefur tekið miklum breytingum hjá lögfræðihópnum, er ljóst að það er ekki það sem fólk kemur til með að kjósa um í þjóðaratkvæðagreiðslu í síðasta lagi í lok október.

Það er svo sorglegt að við í minni hlutanum getum ekki á einhvern hátt stoppað þessa peningaeyðslu sem verið er að fara af stað með. Okkur er að takast að koma þeirri skoðun okkar á framfæri að þetta virðist vera gjald Hreyfingarinnar við stuðning við ríkisstjórnina. Peningar virðast vera hættir að skipta ríkisstjórnina máli, því fara á fram með þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir 250–300 milljónir án þess að depla auga. Það sagði einhver í þingræðu: Ja, þetta eru líklega dýrustu þingmenn Íslandssögunnar, 100 milljónir á mann sem þarf að greiða fyrir stuðning við ríkisstjórnina.

Ég lít það mjög alvarlegum augum að markvisst sé verið að fara með málið enn lengra frá þeim stað sem það á að vera, því það á að vera inni í þinginu. Svo er ekki hikað við að spandera skattfé landsmanna í það og ég minni á að nú þegar hefur þetta ferli hjá hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur kostað um 1.000 milljónir.