140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins með þann hóp sem tilnefnt hefur verið í. Það eru nú svo mikil handarbakavinnubrögð á skipun þess hóps að ekki er til dæmis búið að leggja skipunarbréf fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða afmarka það hvaða fólk þetta á að vera, og ég hef gagnrýnt mjög mikið að það skuli ekki vera gert. Við í stjórnarandstöðunni fengum ekki að tilnefna einn einasta lögfræðing þar inn, það er allt með sama markinu hér að verið er að halda málinu áfram í ófriði.

Varðandi vinnuna sem fer fram. Segjum sem svo að þessi hópur verði búinn að skila inn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í byrjun september, eins og til stendur eða kynnt hefur verið fyrir nefndinni að eigi að gera, þá hef ég þá trú að gerðar verði meiri háttar efnislegar breytingar við þessar tillögur stjórnlagaráðs því að margar hverjar þeirra eru svo gallaðar og svo opnar að ekki er möguleiki fyrir ríkisvaldið að halda uppi þeim kröfum sem fram koma þar. Það er beinlínis búið að viðurkenna það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að skrifa þurfi nýja greinargerð við þessi frumvarpsdrög, eins og ég benti á strax í upphafi. Ég fékk skammir fyrir að hafa verið svo hreinskilin, en sannleikurinn kemur nú alltaf í ljós fyrir rest. Síðan fer það inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þá loksins er málið komið í réttan farveg og við þingmenn farnir að fjalla um það. Þá er þetta orðið löggilt plagg hér í þinginu því að það á að koma í frumvarpsformi. Einhver flutningsmaður verður að því frumvarpi og við þingmenn getum þá fyrst farið að vinna í málinu. Allar þær slaufur og útúrdúrar sem ríkisstjórnin hefur tekið með þetta mál allt frá ógildingu Hæstaréttar á stjórnlagaþinginu er algjör peningaeyðsla. Málið er því eiginlega að komast á byrjunarreit í haust þegar það kemur hér inn.