140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri ánægjulegt ef þessar tillögur yrðu atvinnuskapandi en ég vildi óska að þær yrðu atvinnuskapandi fyrir einhverja aðra en lögfræðinga, ekki það að ég hafi eitthvað á móti lögfræðingum, þeir eru nauðsynlegir líka.

Fyrst vil ég segja eitt varðandi tillögurnar. Það er einn stór galli á framsetningunni. Það er sá galli að kjósendur geta annaðhvort samþykkt allar tillögur stjórnlagaráðs með því að segja já eða sagt nei, það er ekki hægt að samþykkja sumar. Ef við segjum eins og hv. þingmaður og einhver er sammála helmingnum en ósammála hinum, við hvað á hann að krossa?

Ég held því miður að við munum ekki fá trúverðuga niðurstöðu út úr þessari könnun. Þetta eru 114 greinar sem um er að ræða. Eflaust hafa einhverjir náð að kynna sér þær allar en örugglega ekki allir. Ég hef ákveðna skoðun á sumum af þessum greinum, aðrar finnst mér skipta minna máli, enn aðrar eiga að vera, sumar eru úti. Ég hef hins vegar ekki tækifæri til að greiða atkvæði um það í þessari atkvæðagreiðslu.

Varðandi 23. gr. Ég verð að segja að við höfum margir þingmenn farið yfir einstakar greinar í þessu plaggi, tillögum stjórnlagaráðs, og borið saman við breytingartillögur sem við erum að flytja í þinginu og borið saman við þær tillögur sem á svo að spyrja um aukalega og 23. gr., eins falleg og hún er, að allir eigi að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er. Getur einhver skilgreint fyrir mér hvað það er? Hvað þýðir „að hæsta marki sem unnt er“? Ég meina, það er ekkert vandamál að byggja hátæknisjúkrahús á Hofsósi, það er ekkert mál, (Forseti hringir.) þar er nóg landrými.