140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er mjög þakklátur fyrir þá umræðu sem hér á sér stað á eiginlega besta tíma þegar fólk hefur tíma til að horfa á umræðuna og kynna sér það sem það ætlar að kjósa um. Hv. þingmaður tók af mér ómakið þegar hann fór í gegnum þjóðréttarsamninga og framsal ríkisvalds sem ég átti eftir að fara í gegnum. Þar stendur, með leyfi frú forseta, í 1. mgr. 111. gr.:

„Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.“

Þetta er sú grein sem ég geri persónulega mesta athugasemd við. Hver hefur heimild til að gera þennan samning? Er það ráðherra? Er það einstakur borgari landsins eða hvernig standa þau mál? Þetta er bara heimild. Nú vill svo til að Evrópusambandið er myndað til að gæta friðar og efnahagssamninga. Evrópusambandið er myndað til að gæta friðar í Evrópu. Það hefur tekist ágætlega og ég er mjög ánægður með það, það hefur ekki verið ófriður í Evrópu síðan Evrópusambandið var stofnað, (Gripið fram í: Jú, jú, jú.) ekki innan Evrópusambandsins. (Gripið fram í: Evrópusambandsins?) Það hefur ekki orðið ófriður í 60 ár svo það hefur tekist. Evrópusambandið er líka ætlað til efnahagssamvinnu og það er (Gripið fram í.) afturkræf aðild að Evrópusambandinu. Hún er fræðilega séð afturkræf.

Þessi grein segir mér að hver og einn ráðherra getur gert þjóðréttarlegan samning sem felur í sér framsal ríkisvalds með því að ganga í Evrópusambandið. Ég vil biðja hv. þingmann að skoða hvort það álit mitt sé rétt og hvernig hann (Forseti hringir.) meti þá þessa grein.