140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að þakka hv. þingmanni fyrir þessa ábendingu því að það skal viðurkennt að ég hafði ekki áttað mig á því að sú túlkun gæti verið til í dæminu en það er rétt, það kemur í sjálfu sér ekki fram hver það er sem geti gert slíka samninga. Það kemur reyndar fram í síðustu málsgreininni að samþykki Alþingi fullgildingu samnings o.s.frv. skal hann borinn undir þjóðaratkvæði, en það kemur ekkert fram hver geti gert samninga og hver ekki. Það kemur heldur ekki fram sem ég benti á í ræðu minni áðan þegar ég fjallaði um þá breytingartillögu sem við leggjum fram, að það er ekkert sem virðist banna það að eftir að Ísland er gengið í eitthvert annað bandalag, segjum bandalag friðar og efnahagssamvinnu, að þar sé hægt að framselja stjórnvald, ákvarðanir eða stjórnun á auðlindum. Ég mæltist til þess að spurt yrði um það í október hvort þjóðin væri sammála því að stjórnvöld gætu framselt nýtingu eða umsjón með nýtingu auðlinda til annars stjórnvalds. Ég reyndi að máta það inn í þær greinar sem hér eru undir.

Ég fæ ekki séð að neitt komi í veg fyrir það miðað við þetta. Við hljótum því að spyrja hvort það sé vilji þjóðarinnar að einfaldlega sé hægt að segja: Við ætlum að fela einhverri hafrannsóknastofnun einhvers staðar í einhverju bandalagi sem við erum í, umsjón og ráðgjöf með auðlindum okkar. Ég er ósammála því, þannig að það liggi fyrir.

En það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að það kemur ekki fram í 111. gr. hverjir geta og hverjir geta ekki gert slíka samninga, eingöngu hvernig fara á með þá, séu þeir gerðir.