140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða fundarstjórn forseta. Ástæðan fyrir því er að forseti kom með athugasemd eftir ræðu hv. þm. Péturs Blöndals áðan og bað hv. þingmann um að vanda orðaval.

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Péturs Blöndals. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að fá að vita í hvaða orðaval forseti vísaði þar því að ég fullyrði að þetta var mjög hófleg og málefnaleg ræða. Ef eitthvað í ræðu hv. þingmanns var þannig að hann hefði þurft að vanda orðavalið hlýtur það að eiga við um fleiri þingmenn og væntanlega alla þingmenn. Ég held að við séum þá að tala um ansi miklar breytingar. Ég vona að hér sé ekki um neina ritskoðun að ræða af hálfu forseta en ég tel mjög mikilvægt að forseti útskýri hvað hún átti við áðan.