140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

hugsanlegt brotthvarf Grikkja úr evrusamstarfinu.

[15:03]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Svarið við öllum þessum spurningum er já. Við höfum að sjálfsögðu fylgst vel með vandamálunum í Evrópu og þau eru ekki ný af nálinni, því miður, og þrátt fyrir endurteknar aðgerðir og pakka er staðan enn jafntvísýn og raun ber vitni. Mestu áhyggjur manna hafa eflaust snúið að því ef vandinn breiddist út og breiddist til fleiri og stærri ríkja. Almennt mat hefur verið það að menn mundu ráða við það þótt Grikkland væri áfram í erfiðleikum við að vinna úr sínum málum. Og jafnvel þó að þar færu hlutir á hinn verri veg og Grikkir yrðu annaðhvort að yfirgefa evrusamstarfið eða jafnvel lenda í greiðslufalli, sem maður vill helst ekki nefna því að sjálfsögðu óskum við þeim eins og öllum öðrum alls góðs í þeirra erfiðu glímu, mundu menn ráða við það.

Við fórum yfir það bæði á síðasta ári og höfum farið aftur á þessu ári hvaða staða kynni þá að koma upp fyrir Ísland. Það hefur verið rætt í ráðherranefnd um efnahagsmál, í nefnd um fjármálastöðugleika og í ríkisstjórn og þar með var farið yfir það, eins og ég geri ráð fyrir að gert sé í öðrum löndum, hvaða aðstæður gætu þá komið upp, hvort til dæmis væri ástæða fyrir okkur að taka þetta inn í myndina varðandi mat á þörf okkar fyrir gjaldeyrisvaraforða og annað í þeim dúr eins og eðlilegt er að huga að þegar menn reyna eftir föngum að undirbúa sig undir óvissa og ófyrirséða mögulega atburði.

Það er engin leið að sjá það allt fyrir hversu víðtæk og alvarleg áhrifin yrðu ef staðan heldur áfram að versna á þessum slóðum. Við vitum að þarna liggja mikilvægir markaðir fyrir ákveðnar framleiðsluvörur umfram aðrar og við þurfum að sjálfsögðu að huga að því eins og mögulegt er. En almennt hefur Ísland verið í nokkru skjóli fyrir þessum hremmingum (Forseti hringir.) varðandi áhrif á markaði hér og sem betur fer höfum við enn sem komið er ekki merkt mikil neikvæð áhrif á útflutnings- eða viðskiptakjör okkar. En allt eru það hlutir sem við gætum þurft að búa okkur undir.