140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

hugsanlegt brotthvarf Grikkja úr evrusamstarfinu.

[15:05]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að leggja það til við hæstv. ráðherra að ráðherrann flytji þinginu skýrslu um þennan viðbúnað. Viðbúnaður okkar Íslendinga mun með engum hætti hafa áhrif á stöðu Grikkja. Þetta er ekki eins og þegar við vorum sjálf í mikilli fjármálakrísu og þurftum að hluta til að halda þeim undirbúningi innan Stjórnarráðsins. Því væri eðlilegt að slík skýrsla kæmi fram og núna alveg á næstu dögum af því að þessir hlutir geta átt sér stað innan mjög skamms tíma.

En ég vil þá beina öðru til hæstv. ráðherra. Nú þegar svona er komið og miklar áhyggjur eru uppi, bæði hér og annars staðar, um stöðu evrunnar, er þá ekki orðið tímabært að endurskoðuð verði sú ákvörðun að sækja um aðild að Evrópusambandinu af því að slíkri aðild fylgir um leið skylda til að taka upp evruna? Það er svolítið sérstakt að við séum á sama tíma að sækja um aðild að ESB og vera þá skyldug til þess að taka upp evru (Forseti hringir.) um leið og settir eru á fót viðbragðshópar og undirbúningur hafinn vegna þess að þessi sama mynt sé við það að hrynja?