140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

atkvæðagreiðsla um aðildarviðræður við ESB.

[15:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það liggur mikill fjöldi þingmála í þingnefndum og þau bíða afgreiðslu þingsins. Það er álitamál hvað koma á fyrir þingið og hvernig forgangsraða á í því efni. En meginspurningin er þessi: Hvernig eigum við að bregðast við gagnvart Evrópusambandsumsókninni og því ferli öllu saman? Ég hef verið því fylgjandi að skjóta því máli til þjóðarinnar beint og milliliðalaust án aðkomu þingsins sérstaklega í því efni. Það hefur verið afstaða mín. Efnislegar niðurstöður í viðræðum við Evrópusambandið hafa verið að birtast okkur. Þær eru stöðugt að verða sýnilegri og skýrari.

Í mínum huga hefur dæmið verið skýrt frá upphafi vega. Það snerist um grunngerð Evrópusambandsins, allt laga- og reglugerðarverkið sem það býður aðildarþjóðum sínum upp á. Ég hef alla tíð verið andvígur því að við gengjum inn í Evrópusambandið og fyrir mitt leyti hefur ekki þurft neinar viðræður til að leiða það í ljós. Hins vegar hefur stór hluti þjóðarinnar viljað fá skýrari línur í þetta mál, fá að vita hvað er í pakkanum, eins og stundum er sagt. Það er að koma á daginn hvað það er og er ekkert því til fyrirstöðu að við efnum til þjóðaratkvæðagreiðslu hið fyrsta. Ég er sammála hv. þingmanni að þessu leyti að það er mikilvægt að taka þetta mál til afgreiðslu en að þjóðin skeri úr um hvert framhaldið verður.