140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

öryggi lögreglumanna.

[15:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum sem betur fer sammála þjóðinni þegar kemur að mikilvægi lögreglunnar í samfélagi okkar. Lögreglan mælist vera sú stofnun sem Íslendingar treysta hvað best. Við höfum hér á þingi nokkur mál sem lúta í þá átt að styrkja lögregluna enn frekar og starfsumhverfi hennar.

Mig langar því að inna hæstv. innanríkisráðherra eftir því hvort samhljómur sé á meðal okkar um að almennt þurfi að auka öryggi lögreglumanna við störf sín. Það sem ég er að velta fyrir mér er að við höfum heyrt af áhyggjum lögreglumanna af því þegar þeir eru jafnvel einir í bílum að sinna erfiðum útköllum eða mjög stórum svæðum. Allt tengist þetta að sjálfsögðu fjármögnun lögregluembættisins. Við sem erum mikið á ferðinni verðum vör við að minna sést til lögreglunnar en oft áður. Við sjáum það á þingmálum sem ég nefndi áðan að þingmenn hafa margir hverjir áhyggjur af þeirri þróun sem hefur orðið varðandi löggæslustörfin. Við höfum lagt fram tillögu um að farið sé í skilgreiningu á mannaflaþörf og fjármagnsþörf lögreglunnar. Því tel ég eðlilegt að inna ráðherra eftir því hvort hann taki undir þessar áhyggjur og hvort ekki sé fullkomin ástæða til að hraða vinnu við að skilgreina betur hver þörfin er fyrir mannafla og þá fjármuni sem þarf til að reka lögregluembættin. Við getum öll verið sammála um að óásættanlegt er að það sé einn lögregluþjónn á stóru svæði þar sem kannski tekur mörg hundruð kílómetra að keyra í útkall eða eitthvað þess háttar.

Að sjálfsögðu skiptir öryggi lögreglumanna líka miklu máli því að lögreglumaður sem er einn á ferð og þarf til dæmis að skakka leikinn (Forseti hringir.) í samkvæmi eða sinna einhverju slíku er kannski illa búinn til þess.