140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

öryggi lögreglumanna.

[15:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil að nýju taka undir með hv. þingmanni og segja að það er vilji ríkisstjórnarinnar og sem betur fer vilji Alþingis almennt að búa vel að lögreglunni þannig að hún geti sinnt störfum sínum sem best. Ég minni á að fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga frá allsherjarnefnd þingsins, flutt af öllum sem þar eiga sæti að ég hygg, og er þar fremstur í flokki Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar, þar sem sérstaklega er lagt til að búið verði í haginn á komandi árum fyrir starf lögreglunnar og sérstaklega gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Þetta finnst mér vera til marks um þann þverpólitíska vilja sem er á þinginu til að taka af festu á þessum málum sérstaklega, þ.e. skipulagðri glæpastarfsemi sem hv. þingmaður vék að áðan.