140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

neytendavernd á fjármálamarkaði.

[15:32]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé ekki rétt að það hafi engin samskipti verið við Evrópusambandið um þessi mál. Þau ber á góma reglulega, t.d. á svonefndum ECOFIN-vettvangi þar sem ég hef mætt og þar sem þessi mál hafa verið rædd og þar sem sérstöðu bæði Íslands og Noregs í þessum efnum hefur borið á góma. Sömuleiðis hefur verið farið yfir þetta í samskiptum við Evrópusambandið sem tengist þeim köflum í samningaviðræðunum sem lúta að þessu sérstaklega, 4., 9. og 17. kafla til dæmis, og það hefur borið á góma hver staðan í þessum málum er hjá okkur.

Við munum þurfa að ganga frá reglum sem tryggja nægilega neytendavernd á fjármálamarkaði með einhverjum hætti og sem stendur erum við bundin af því að notast við þær evrópsku reglur sem niðurstaðan verður að þar verði innleiddar nema þá að því marki sem við fengjum undanþágur frá þeim eða semdum okkur frá því að þurfa að innleiða þær með sama hætti og aðrir gera. Þær eru að vísu ákveðnar lágmarksviðmiðanir í eðli sínu og þó ekki, samanber deilu Norðmanna við ESB um að fá að tryggja mun hærri fjárhæðir í sínum bönkum en þar hefur verið miðað við.

Vandinn er sá að þessi mál eru enn í mikilli deiglu í Evrópu og það er svolítið erfitt að ræða við Evrópusambandið um sérlausnir Íslands á meðan Evrópusambandið veit ekki sjálft hvernig það ætlar að hafa reglurnar að endingu. Það er ein meginástæða þess að við höfum beðið átekta með frekari aðgerðir á sviði löggjafar hér að málin liggja alls ekki skýrt fyrir af hálfu Evrópusambandsins. Á meðan gildir auðvitað sú yfirlýsing sem hér hefur verið marggefin og ítrekuð að innstæður eru tryggðar og að okkar gjaldþrotaskiptalöggjöf er þannig í dag að innstæður eru forgangskröfur í bú. Það má því segja að það sé ríkulega um það búið í bili. Það er til dæmis ein spurning sem þarf að fást á hreint hvort við getum reiknað með því, eða megum ef við svo kjósum, að hafa okkar löggjöf þannig til frambúðar.