140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

sérstök lög um fasteignalán.

788. mál
[15:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Það er jákvætt að heyra að ráðherrann vill alls ekki útiloka að þetta verði annaðhvort í þeirri almennu fjármálastöðugleikalöggjöf sem er boðuð í skýrslunni um framtíðarskipan fjármálakerfisins eða sett í sérlög og hann hefji þá vinnu að því.

Ég tel betra að hafa fasteignalán undir neytendalánum en hafa þau ekki þar. Kaup á fasteign er stærsta einstaka fjárfesting langflestra heimila. Ég held þess vegna að það sé mjög brýnt að við setjum skýrari ramma, jafnvel strangari kröfur til þeirra sem veita lán til þessarar stóru fjárfestingar en þeirra sem veita smálán eins og rætt hefur verið um, þ.e. að nýja frumvarpinu sé beint sérstaklega gegn smálánafyrirtækjum. Það skiptir miklu máli. Það skiptir ekki bara máli fyrir heimilin eins og við sáum í hruninu heldur skiptir það miklu máli fyrir fjármálalegan stöðugleika í íslensku efnahagslífi að hafa þetta mjög skýrt.

Þetta tengist að vissu leyti líka umræðunni um þau úrræði sem lífeyrissjóðunum er heimilt að veita þeim sem hafa tekið húsnæðislán hjá þeim. Það má alveg spyrja sig hvort eðlilegt sé að lífeyrissjóðir veiti húsnæðislán beint til sjóðfélaga sinna í ljósi þess að þeir eiga erfitt með að veita sambærileg úrræði og aðrir lánveitendur á fjármálamarkaðnum bjóða. Kannski er eðlilegra að þeir fjármagni eða kaupi frekar skuldabréf tengd þeim lánveitingum sem gætu þá fallið undir þess háttar löggjöf.

Ég nefndi líka að þó að ákveðin ákvæði séu varðandi greiðslumat eru til dæmis engin ákvæði (Forseti hringir.) um markaðsvirði, það eru engin ákvæði um hámarksveðhlutfall í neytendalöggjöfinni, engin lengd er á lánatíma og það eru svo sannarlega engar kvaðir varðandi fjármögnunina sem ég hef verulegar áhyggjur af út af stöðu bankanna núna og lánveitingum Íbúðalánasjóðs.