140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

ökuskírteini og ökugerði.

673. mál
[15:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég sendi skriflegar fyrirspurnir til innanríkisráðherra er vörðuðu ökugerði og reglugerðir um ökuskírteini og stöðugt nýjar reglugerðir á meðan umferðarlögin hafa ekki verið kláruð í þinginu og svo fyrirkomulag ökugerðis. Ökugerði er lokað svæði sem ætlað er til akstursþjálfunar. Í Reykjavík fékk Fræðslumiðstöð Ökukennarafélags Íslands, þ.e. Ökuskólinn í Mjódd, aðstöðu Strætisvagna Reykjavíkur á Kirkjusandi til þess arna. Bóklegu námi til ökuprófs er skipt í tvo áfanga, Ö-1 og Ö-2, 12 tíma hvor, og nú hefur þriðja áfanganum, sem sagt ökugerði Ö-3, verið bætt við og er hann fimm stundir. Nú er því hægt að kryfja mál betur til mergjar með fullkomnari kennslutækjum, veltibíl, skábraut til að sýna ágæti bílbelta, brennivínsgleraugum o.s.frv. Ökuskólinn hefur yfir að ráða stórum vöruflutningabíl sem hann getur farið með hvert á land sem er en sá galli er á gjöf Njarðar að kennslustaður þarf allmikið rými með bundnu slitlagi sem ekki finnst víða og er til dæmis ökugerðið í Reykjavík í það minnsta.

Í upphafi var gert ráð fyrir að þessi kennsla væri fram á fjórum stöðum á landinu. Fyrir utan Reykjavík væri það í Reykjanesbæ, á Bakkaflugvelli í Landeyjum og Aðaldalsflugvelli. Svo fór þó að tveir síðar nefndu staðirnir hafa lítt eða ekkert verið notaðir en nú er komin upp aðstaða á Akureyri.

Þegar fyrstu áætlanir voru gerðar var ákveðið að þeir sem byggju fjærst kennslustöðum fengju undanþágu frá þessu námi til þriggja ára, þ.e. þeir fengju að taka ökupróf en þyrftu að ljúka þessu námi áður en þeir fengju fullnaðarskírteini. Til að greina sauði frá höfrum var ákveðið að styðjast við póstnúmerakerfið og þarf ekki að fjölyrða um það í hvers konar ógöngur það leiddi og hvernig sanngirnin snerist fljótlega upp í andhverfu sína. Má taka mörg dæmi um það.

Hér fá menn ökuréttindi en á mismunandi forsendum og með mismunandi kröfum um undirbúning. Þetta leiðir hugann að jafnréttisákvæðum í stjórnarskrá sem við ræðum hér flesta daga.

Einnig má hugleiða afstöðu lögreglu og tryggingafélaga ef hálkuslys verður og menn hafa mismunandi ökuskírteini. Ertu búinn að taka Ö-3 eður ei?

Vegna þess hve almenningssamgöngur eru bágbornar þarf einhver fullorðinn með bílpróf að aka með nemendur á kennslustað, oft um langan veg, og bíða síðan meðan kennsla stendur yfir. Oftast eru þetta foreldrar eða ökukennari.

Ég vil bæta við þriðju spurningunni við þær tvær sem ég nefndi í upphafi máls míns. Kæmi til greina að fara þá skynsamlegu leið að heimila öllum að fresta þessu námi um t.d. allt að einu ári? Öll kennslufræðileg rök mæla með því að upprifjun námsefnis reynist betur ef nokkuð er liðið frá frumnámi og eiga þá flestir leið á kennslustað einhvern tíma á árinu og geta lokið þessu námi í leiðinni en ekki sér og nemendur hafa þá bílpróf og geta komið sér sjálfir á staðinn. Með þessu móti mundi ríkja jöfnuður meðal nemenda hvað þetta áhrærir. Ökunám verður alltaf dýrara og önugra í dreifbýli en í þéttbýli og er óþarfi að auka þann mun að ástæðulausu, sem mér finnst reglugerðir ráðuneytis hafa gert.