140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

ökuskírteini og ökugerði.

673. mál
[15:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Spurt er þriggja spurninga, tveggja sem áður hefur verið beint til mín og einni bætt við.

Í fyrsta lagi er spurt hvort eðlilegt sé að ráðuneytið sendi frá sér sífellt nýjar og nýjar reglugerðir um ökuskírteini meðan frumvarp til nýrra umferðarlaga liggur fyrir Alþingi. Því er til að svara að núgildandi reglugerð um ökuskírteini, nr. 830/2011, er sett á grundvelli umferðarlaga, nr. 50/1987. Því eru engin tengsl milli reglugerðarinnar og frumvarps til umferðarlaga sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Reglugerð um ökuskírteini er breytt eftir því sem þörf krefur og verður svo einnig eftir að ný umferðarlög hafa tekið gildi.

Þá setur hv. fyrirspyrjandi fram þá spurningu hvort ráðuneytið geti ekki ákveðið til frambúðar fyrirkomulag undanþágu frá námi í ökugerði, en í fyrstu hafi undanþágan verið ótímabundin, síðan hafi hún átt að hverfa 1. mars sl. en nú sé hún skyndilega framlengd til 1. janúar 2013. Reglur um þjálfun ökunema í ökugerði komu í reglugerð um ökuskírteini á árinu 2007 en unnið hafði verið að því hörðum höndum að koma upp aðstöðu til þjálfunar ökunema í ökugerði víðs vegar um landið. Það hefur hins vegar reynst tafsamara en áætlað var og var því ákveðið í samráði við Ökukennarafélag Íslands að ökunemar á landsbyggðinni gætu frestað þjálfun í ökugerði allt til þess að þeir fengju fullnaðarskírteini, en í þéttbýli var áskilið að þjálfun væri lokið áður en ökunemi fengi bráðabirgðaskírteini. Gert var ráð fyrir að ákvæði þetta félli úr gildi þann 1. mars sl. en þar sem enn skortir á að kennsla í ökugerði á landsbyggðinni sé í ásættanlegum farvegi var ákveðið að framlengja undanþáguna til 1. janúar næstkomandi.

Hvenær þjálfun í ökugerði verður í boði í öllum landshlutum allan ársins hring er erfitt að segja til um en tíminn til áramóta verður notaður til að leggja mat á stöðu mála. Nú rekur Ökukennarafélagið ökugerði á Kirkjusandi í Reykjavík og er með viðurkennda aðstöðu í Reykjanesbæ auk þess sem það hefur yfir að ráða færanlegum búnaði til kennslu í ökugerði. Ökugerðið Akureyri ehf. hefur hlotið starfsleyfi en Ökugerði Íslands ehf. á Reykjanesi er ekki komið í gagnið. Unnið er að lausn á þessum málum á Austurlandi og Vestfjörðum en engin lausn er komin á þeim svæðum enn sem komið er.

Hv. þingmaður velti því fyrir sér hvort rétt sé að fresta ákvæðum er snerta kröfur um kennslu í ökugerði um allt að eitt ár og gefin verði ákveðin sveigja í kerfinu hvað það snertir á meðan málin eru enn í skipulags- og mótunarfarvegi, eins og kom reyndar fram í svari mínu við annarri spurningu. Það er alveg rétt, það eru vangaveltur sem eru þess virði að taka til umhugsunar.

Hitt vil ég segja og efast ekki um að við erum alveg sammála, ég og hv. fyrirspyrjandi, um það hve mikilvæg ökugerðin eru í ökukennslunni. Ég lærði ekki í ökugerði þegar ég tók ökupróf á sínum tíma en hef fengið tækifæri til að prófa þau tæki sem þar eru til ráðstöfunar og verð að segja að eftir þá reynslu tel ég mikilvægt að allir þeir sem taka ökupróf eigi kost á því að fara í ökugerði og öðlast þá þjálfun sem þau bjóða upp á.