140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

ökuskírteini og ökugerði.

673. mál
[16:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þau svör sem ráðherra gaf við áður sendum spurningum mínum og þeirri sem ég bætti við í ræðu minni. Ástæðan fyrir því að ég sendi þessa fyrirspurn á ráðuneytið er auðvitað sú að það er talsverð óánægja, ekki síst á landsbyggðinni, með stöðugar breytingar. Í skriflegri fyrirspurn sem ég sendi fyrr í vetur um námsheimild til að hefja ökunám spurði ég meðal annars að því hvort einhver fyrirmynd væri að slíkri námsheimild frá öðrum löndum. Mönnum þótti svolítið sérstakt að þurfa að fara fyrst til sýslumanns til að sækja um námsheimild áður en menn færu að læra á bíl, það hefur ekki verið þannig áður. Þá var vísað til þess að það virtist vera fjallað með skýrari hætti um þetta í frumvarpi að umferðarlögum en gert er í núverandi lögum, þó svo að ég sé ekki að rengja að ráðherrann hafi heimild til þess í þeirri reglugerð sem hann vísar til, að hann geti sett reglugerðir á grundvelli þessara greina.

Það hefur sem sagt verið megn óánægja með að menn hafi verið að hræra dálítið í þessu og fyrirkomulaginu breytt. En ég tek undir að það er mikilvægt að komast í ökugerði. Sjálfur hef ég ekki enn fengið að prófa það en ég held að það sé án efa nauðsynlegt í þeirri umferð sem við upplifum í dag.

Ég vil að lokum koma þeirri spurningu til ráðherra og ítreka það hvort ekki mætti hugsa sér það fyrirkomulag að menn þyrftu ekki að taka ökugerðishlutann í upphafi, þegar þeir fá ökuleyfi í fyrsta skipti, heldur einhvern tímann á því fyrsta ári, hefðu undanþágu til eins árs. Þá gætu þeir komið sér á staðinn og ég bendi á þau rök að menn gætu hugsanlega lært meira af ökugerðinu við að fá eins konar endurnám fljótlega eftir að þeir tóku próf.