140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

skimun fyrir krabbameini.

671. mál
[16:15]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að harma það að geta ekki gefið skýrari svör hvað varðar tímann, en þakka þau fyrirheit að hjálpa okkur að útvega peninga í þetta. Það er rétt að það er oft dýrt að spara. Sumt af því sem maður hefði viljað sjá unnið í forvörnum og gæti dregið þá ályktun að mundi leiða til sparnaðar til lengri tíma hefur ekki gengið eftir því það hefur reynst þrautin þyngri að útvega þá peninga á sama tíma og við höfum þurft að beita hörðu aðhaldi í heilbrigðisþjónustu.

Varðandi kostnaðarþátttöku sjúklinga er sá möguleiki auðvitað fyrir hendi. En það þarf að taka það kerfi upp í heildina, þ.e. hvernig greiðslum sjúklinga er almennt háttað. Það er þó ánægjulegt að vita til þess að þrátt fyrir allt, þrátt fyrir þær breytingar sem hafa orðið og samningsleysi varðandi sérgreinalækna er sá kostnaður sem sjúklingar bera almennt af heildarkostnaði í heilbrigðiskerfinu ekki nema í kringum 20%. Hann hefur hækkað lítillega en ekki mjög mikið sem betur fer.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á ályktun Krabbameinsfélags Íslands frá því núna í maí og tek heils hugar undir. Það er full ástæða til að fylgja þeim hugmyndum sem þar koma fram, bæði um að endurnýja leiðbeiningarnar og efla til kynningarátaks. Ég veit af því að þar sem krabbamein af þessari tegund hafa fundist í fjölskyldum hefur verið ráðlagt að menn fari í skimun. Það er hægt. Menn geta að sjálfsögðu haft frumkvæði að því sjálfir að láta skoða sig til öryggis. Kannski er það fyrsta skrefið.

Varðandi skráninguna höfum við lent í svolitlum vandræðum með að skrá hlutina, en það er eitt af stóru verkefnunum í heilbrigðiskerfinu, að halda betur utan um allar skrár og aðgerðir sem unnar eru. Allar þessar tillögur eru mjög góðar og mikilvægar. Ég mun reyna að fylgja þeim eftir innan ráðuneytisins þó ég treysti mér ekki til að svara skýrt hvenær hægt verði að taka upp skimun við krabbameini í ristli eða endaþarmi.