140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

tóbaksreykingar við sjúkrastofnanir.

766. mál
[16:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að spyrja hæstv. velferðarráðherra út í reykingamál, hvort það kæmi til greina að banna alfarið tóbaksreykingar á lóð sjúkrastofnana eða að minnsta kosti við inngang stofnananna og á svölum þeirra.

Á hverju ári látast um 300 Íslendingar vegna reykinga, það er tæplega einn á dag, og þar af 20–30 vegna óbeinna reykinga, það eru tveir á mánuði. Þetta eru upplýsingar sem koma fram í þingsályktunartillögu sem sú er hér stendur flytur varðandi tíu ára aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir. Ég sé í salnum tvo hv. þingmenn sem eru meðal annarra meðflutningsmenn og það eru hv. þingmenn Margrét Tryggvadóttir og Eygló Harðardóttir. Þetta er mjög alvarlegt. Því ber að vinna af miklum krafti gegn reykingum almennt í samfélaginu og er nokkuð góður samhljómur um það.

Varðandi bann við reykingum á sjúkrahúslóðum er búið að gefa út reglugerð um takmarkanir á tóbaksreykingum og þar stendur að bannað sé að reykja á sjúkrahúsum og það nái til allra húsakynna sjúkrahúsanna og skuli ekki reykt á svölum og ekki í eða við anddyri. Það má hins vegar vera með afdrep fyrir sjúklinga í vissum tilvikum, en það má sem sagt ekki vera í eða við anddyri. Þar liggur vandinn því að það er svo erfitt að skilgreina hvað sé í eða við anddyri. Eru það þrír metrar frá hurð, fimm metrar frá hurð eða 50 metrar frá hurð o.s.frv.?

Því miður hefur reynslan sýnt að reglugerð dugar ekki til. Nú er t.d. reykt við anddyrið á Landspítalanum. Í vikunni tíndi læknir þar upp 200 stubba, þ.e. ígildi 10 sígarettupakka — ég held að það séu 20 sígarettur í hverjum pakka. Mér skilst að eitthvað hafi verið kvartað undan reykingum í anddyrinu.

Ég tel að það verði að taka á þessu, annaðhvort með því að ýta reykingum frá anddyrinu með leiðbeiningum eða skiltum eða taka af skarið og banna alfarið reykingar á svæðinu, eins og menn hafa gert í Svíþjóð þar sem ákveðið var að Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið skyldi verða alveg reyklaust og það gildir á allri sjúkrahúslóðinni. Þar eru skilti við jaðar lóðarinnar sem á stendur: Drepið í sígarettunni hér, það er ekki leyft að reykja á sjúkrahúslóðinni.

Ég vil því spyrja hæstv. velferðarráðherra hvort það komi til greina að setja annaðhvort skýrari leiðbeiningar í reglugerð um að reykingar færist miklu lengra frá anddyrinu en er í dag eða hreinlega banna alfarið reykingar á sjúkrahúslóðinni (Forseti hringir.) sem er kannski eina lausnin þegar fram í sækir.