140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

tóbaksreykingar við sjúkrastofnanir.

766. mál
[16:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að það séu tvær leiðir færar í þessu, annaðhvort að koma með afgerandi túlkun um hvar anddyri er og segja hreint út að það séu ákveðnir metrar og ýta reyknum frá anddyrinu í samræmi við það eða segja hreinlega: Það má ekki reykja á lóð þessa sjúkrahúss.

Ég heyri að hæstv. ráðherra segja að Landspítalinn hafi nú þegar tekið þetta skref og ég fagna því sérstaklega. Ég býst þá við því að Landspítalinn hafi ákveðið að túlka 1. gr. laga um tóbaksvarnir þannig að það nægjanleg lagastoð sé í þeirri grein til að verja alla lóðina gegn tóbaksreyk. Í 1. gr. laga um tóbaksvarnir er fjallað um markmið laganna. Þar stendur í miðri grein, með leyfi forseta:

„Virða skal rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra.“

Væntanlega er þetta nægjanlega skýrt til að Landspítalinn treysti sér að taka það skref að úthýsa tóbaksreyk af lóð sinni þrátt fyrir að reglugerðin hljómi á þann veg að ekki megi reykja í anddyri. Líklega væri skynsamlegast, næst þegar tækifæri gefst til að endurskoða reglugerðina, að setja það líka í reglugerðina að bannað væri að reykja á lóðum allra sjúkrahúsa á Íslandi. Ég held að við eigum að gera eins og Svíar, að heimila ekki reykingar á sjúkrahúslóðum, af því að það er svo erfitt að framfylgja því og segja til um hvað sé anddyri og hvað ekki.

Ég vil fagna sérstaklega því jákvæða skrefi sem Landspítalinn hefur tekið (Forseti hringir.) og vona að önnur sjúkrahús fylgi í kjölfarið.