140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

framtíðarskipan fjármálakerfis.

778. mál
[16:32]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að við fáum tækifæri hér í önnum þingsins á síðustu vikum að ræða þessa skýrslu og að hún geti að umræðunni lokinni gengið til viðeigandi þingnefndar til þóknanlegrar umfjöllunar. Einn megintilgangur skýrslunnar er að stuðla að umræðu og skoðanaskiptum um þessi mikilsverðu mál og í þeim tilgangi ekki síst er hún tekin saman.

Við stöndum frammi fyrir því að fjármálakerfi heimsins hafa mátt þola líklega hörðustu kreppu sem á þeim hefur dunið í heila öld. Þó má kannski segja að einstök ríki hafi jafnvel farið verr út úr glímu við kreppur — svo sem hrun bankakerfis Bandaríkjanna á árunum 1929 til 1933. Núverandi fjármálakreppa er að mörgu leyti einstök að því leyti að miklir erfiðleikar hafa steðjað að og steðja enn að fjármálakerfum mjög margra ríkja í senn. Það er svo að velflest af þróaðri ríkjum sem hafa myndað burðarásinn í hagkerfinu og margir hefðu sjálfsagt talið að væru komin með svo þroskuð og sterk fjármálakerfi að litlar líkur væru á allsherjarsmiti og kreppu, þau sitja nú í sömu súpunni að þessu leyti. Ekki þarf að fjölyrða um efnahagsleg og félagsleg áhrif þessa ástands, þess gætir um allan heim og það endurspeglar náttúrlega hversu nánum böndum hagkerfi flestra ríkja eru orðin tengd hvert öðru.

Fjármálakreppan hefur auðvitað leitt í ljós miklar grundvallarveilur og vankanta á fjármálakerfinu, ég held að varla þurfi að deila um það, og sömuleiðis hafa vaknað margar og margvíslegar siðferðilegar og pólitískar spurningar sem takast verður á við og svara. Allt er þetta nauðsynlegt eigi að vera mögulegt að endurheimta traust almennings til banka og fjármálamarkaða. Af þessum sökum er auðvitað þörf á gagngerum umbótum, að endurskoða umgjörð og skipan fjármálakerfisins víða um lönd, á alþjóðavettvangi, og Ísland er þar engin undantekning nema síður sé. Ef það er eitthvert eitt land undir sólinni sem þarf að reyna að læra sína lexíu af því sem gerðist er það Ísland. Kostnaðurinn af hruni íslensku bankanna haustið 2008 var og er geysimikill og birtist í ýmsum myndum; í atvinnuleysi, í tekjumissi, í mikilli skuldaaukningu heimila og fyrirtækja og síðast en ekki síst í stóraukinni skuldabyrði íslenska ríkisins. Allt er þetta rakið í skýrslunni, herra forseti. Við glímum öll við áhrif þessa, stjórnvöld, almenningur og atvinnulífið að ógleymdu auðvitað því tapi sem varð með falli íslensku bankanna og erlendir lánardrottnar sitja uppi með.

Það þarf því að takast á við margar og stórar spurningar: Hvað fór úrskeiðis? Hvað þarf að gera til þess að draga úr líkum á því að þjóðarbúið verði nokkru sinni aftur fyrir áföllum af þessu tagi og hvernig má almennt reyna með fyrirbyggjandi aðgerðum að draga úr mögulegum fjármálaáföllum sem kunna að ríða yfir í framtíðinni. Það væri barnalegt að draga þann lærdóm af þessari kreppu og/eða viðbrögðunum við henni eins og menn hafa stundum freistast til að gera áður, að nú hafi menn lært sína lexíu og annað eins muni aldrei endurtaka sig. Þessu hafa menn lofað áður og lítið orðið um efndir.

Við þurfum að glíma við þetta viðfangsefni sjálfra okkar vegna til að endurheimta hér á landi traust á íslensku fjármálakerfi en traust er eins og allir vita forsenda þess að bankakerfið geti sinnt þeim mikilvægu verkefnum sem því eru ætluð. Og það dugar ekki að busla á yfirborðinu, það þarf að skyggnast djúpt í samhengi fjármálakerfisins og þjóðarbúskaparins almennt, kanna vandlega hlutverk og gangverk fjármálastarfseminnar. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvað valdi því að fjármálakerfin hafa jafnmikla tilhneigingu til ofþenslu sem síðan endar í kreppum eins og raun ber vitni. Hvað er hægt að gera til að fyrirbyggja þessa sveifluhegðun? Þá reyna menn að greina og rekja rætur þeirra fjármálaáfalla sem dunið hafa yfir á undanförnum árum. Hvernig er hægt að tryggja að fjármálakerfið gegni sínu mikilvæga hlutverki, sem ekki má ýta til hliðar í umræðunni, þ.e. að beina sparnaði til arðbærra verkefna, annast um greiðslumiðlun, mynda markað um öruggar fjárskuldbindingar, tryggja áhættudreifingu, umbreytingu á tímalengd fjárskuldbindinga og tryggja jöfnun ráðstöfunartekna yfir ævibil manna o.s.frv.?

Það verður að horfast í augu við að flest bendir til að fjármálakerfið og stjórnendur fjármálafyrirtækja hafi einfaldlega ekki, á síðasta áratugnum eða svo, haft í öndvegi að sinna þeim meginverkefnum heldur hafi af margvíslegum ástæðum, vegna markaðsbresta, vegna margs konar flókinna fjármálaafurða sem menn voru ótrúlega hugkvæmir í að búa til, vegna stórskaðlegra hvatakerfa og áhættusækni, leiðst út í starfsemi sem alls ekki þjónaði grunnmarkmiðum heilbrigðrar fjármálastarfsemi í samfélaginu. Þangað sé ekki síst að leita rótanna að ofþenslu eða græðgisvæðingu, eins og við höfum mörg hver kosið að kalla það, sem endaði með þessu dýrkeypta hruni.

Þá er spurningin: Hvað er til ráða? Vissulega hefur þegar ýmislegt verið gert. Við fengum rannsóknarskýrslu og á grundvelli hennar og samhliða hefur löggjöf verið breytt þar sem menn hafa reynt að sníða af augljósustu ágallana sem hrunið afhjúpaði, svo sem eins og að draga úr krosseignartengslum og lánveitingum til eigenda eða tengdra aðila. Má nefna í því sambandi allviðamiklar breytingar sem gerðar voru á lögum um fjármálafyrirtæki og ný heildarlög um vátryggingarstarfsemi sem sett voru á árinu 2010.

Þessari skýrslu hér er hins vegar ætlað að vera gagnrýninn grunnur umræðu og umfjöllunar um skipan þessara mikilvægu mála. Skýrslan er með vilja sett þannig fram að ekki er reynt að svara með tæmandi hætti eða taka afstöðu til margra stóru álitamálanna heldur eru þau reifuð og ýmis sjónarmið reidd fram til þess að þroska umræðuna og leiða okkur áfram í áttina að því að komast að niðurstöðu um mörg mjög mikilsverð atriði.

Nokkrar af þeim hugmyndum vil ég þó gera sérstaklega að umfjöllunarefni án þess að tíminn leyfi að fara í þær í einstökum atriðum. Ég byrja á því að í skýrslunni er talsvert fjallað um það sem kalla má þriðja svið hagstjórnar, þ.e. sérstaka löggjöf um fjármálastöðugleika þar sem væri að finna rammalöggjöf um alla samkynja starfsemi á fjármálamarkaði til að tryggja að sömu reglur gildi um fjárhagslegt öryggi og ávöxtun eigna og framgöngu á markaði. Í þeim lögum væri einnig búið um hvernig best væri að samræma aðgerðir til að tryggja fjármálalegan stöðugleika og í skýrslunni er nefndur möguleikinn á fjármálastöðugleikaráði. Það þarf að fjalla um og ganga frá verkaskiptingu eftirlitsaðila og um samþættingu fjármálastöðugleika og annarra stjórntækja á sviði hagstjórnar og efnahagsmála. Fjármálastöðugleiki er auðvitað mikilvæg almannagæði sem við getum kallað sem svo, og hefur án efa ekki fengið þá athygli sem skyldi í umfjöllun um þessi mál.

Ég vil líka nefna að í skýrslunni er fjallað um mögulegan aðskilnað eða frekari aðgreiningu hefðbundinna viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Þar er sömuleiðis ekki kveðið upp úr um hver eigi að vera endanleg niðurstaða, hversu langt eigi að ganga, en það er að sjálfsögðu eitt af því sem er mikilvægt að menn hafi undir í þessari umræðu og móti sér skoðun á, hafi þeir hana ekki fyrir. Það er hægt að segja að ekki sé bráðavandi eða bráðahætta á ferðum í íslenska bankakerfinu í augnablikinu hvað þetta varðar, einfaldlega sökum takmarkaðrar stærðar þess og eðlis við núverandi aðstæður í okkar nýendurreista bankakerfi, en það væri barnalegt að horfa ekki til framtíðar og vera búinn að ákveða og ganga frá í lögum þeirri framtíðarskipan mála sem við ætlum að viðhafa í þeim efnum. Þá er augljóst að eitt af því sem gera má til að afmarka áhættu í kerfinu er að aðskilja hina hefðbundnu viðskiptabankastarfsemi og áhættusamari starfsemi eða aðra starfsemi sem liggur fjær einstökum viðskiptavinum með svipuðum hætti og nú er hugsað í frumvarpi til laga um sparisjóði sem liggur fyrir þinginu.

Ég vil nefna aðeins að lokum, hæstv. forseti, næstu skref í málinu, hvernig við hugsum okkur að þróa þessa umræðu og vegferð áfram. Meiningin er að að lokinni umfjöllun á Alþingi og eftir atvikum því sem þingnefnd vill um málið fjalla, mun sérfræðingahópur fara yfir skýrsluna. Hann hefur þegar verið skipaður og fenginn til verksins, skipaður þeim Gavin Bingham, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá BIS í Basel, Kaarlo Jännäri, sem var forstjóri finnska fjármálaeftirlitsins og menn kannast nú orðið nokkuð við hér á landi, og Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi bankastjóra Norræna fjárfestingabankans. Hópurinn mun fara rækilega yfir skýrsluna, þá umfjöllun sem um hana hefur orðið, þær umsagnir og þau skoðanaskipti sem hún hefur orðið tilefni til og vinna úr því efni tillögur sem verða svo til skoðunar á haustmánuðum. Í þeirri rýnivinnu mun sérfræðinefndin meðal annars kanna hvernig lögum og reglum um fjármálastarfsemi og framkvæmd eftirlits á Íslandi hefur verið breytt þegar frá hruni, greina þá veikleika sem enn eru til staðar á regluverki, eftirlitsþáttum og eftirfylgni og gera tillögur til úrbóta, leggja fram tillögur byggðar á viðurkenndum rannsóknum og samanburði við aðra kosti um hvernig unnt er að styrkja stofnanalega umgjörð eftirlits á fjármálamarkaði. Þá er mikilvægt að leggja áherslu á að það snýr bæði að eindaeftirliti, eftirliti með hverri og einni einingu í kerfinu, og síðan þjóðhagsvarúðarsviðinu og fjármálaáhættu í heild.

Loks mun sérfræðinganefndin fjalla um það hvernig best fari á því að setja heildarumgjörð um alla starfsemi á fjármálamarkaði og þar á meðal taka afstöðu til þess hvort setja eigi slíka ramma eða regnhlífarlög og hvort hluti af því eigi að vera fjármálastöðugleikaráð. Á grundvelli niðurstaðna sérfræðihópsins er svo gert ráð fyrir því að ráðist verði í frumvarpssmíð og meðal annars leitað aðstoðar fræðasamfélagsins í þeim efnum. Von mín er sú að ef allt gengur vel gætum við mætt með slíka afurð hér snemma á haustþingi.

Ég endurtek, herra forseti, þakkir mínar fyrir að fá þessa umræðu og vona að hún verði gott innlegg í frekari vinnu á þessu sviði.