140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

framtíðarskipan fjármálakerfis.

778. mál
[17:07]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Við ræðum hér framtíðarskipan fjármálakerfis sem eru svolítið stór orð eftir það sem á undan er gengið varðandi íslenskt fjármálakerfi. Við höfum svo sannarlega reynslu til að byggja á. Við höfum reynslu frjálshyggjuhugmyndafræðinnar hvað viðkemur fjármálakerfum en því miður virðist sú skýrsla sem við fjöllum um hér ekki fara mikið út í þær hugrenningar sem maður fær af reynslunni.

Hv. þm. Helgi Hjörvar fór allrækilega yfir þetta mál hérna rétt áðan og ég er sammála flestu því sem hann sagði um hvað gera þarf við íslenskt fjármálakerfi.

Forsendurnar fyrir því eins og kerfið var voru grautfúnar og það má ekki gerast aftur sem við virðumst vera að gera, að byggja upp nýtt fjármálakerfi á sömu fúaspýtunum og var. Hér var farið af stað með því að taka inn rammalöggjöf Evrópusambandsins á sínum tíma um fjármálamarkaði en ekki var prjónað inn í hana og fyllt upp í hana eins og gert var í öðrum löndum heldur var hún látin standa nánast óbreytt í þeim tilgangi að koma hér á einhvers konar fjármálakerfi sem var eins og villta vestrið. Á þessum tíma kom ég sjálfur heim frá New York, hafði bæði verið þar í námi og unnið á fjármálamörkuðum og ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég sá hvers konar regluverk var hér í gangi.

Þau stjórnvöld sem voru hér við völd á þeim tíma gerðu þetta skipulega og þetta var gert í ákveðnum tilgangi. Þetta þurfum við að varast í framtíðinni. Það þarf nýja hugsun og það þarf algjöra endurskoðun á kerfinu. Sumir þættir verða erfiðari en aðrir —

Herra forseti. Ég óska þess að hv. þm. Eygló Harðardóttir upplýsi okkur hér um þá brandara sem (Forseti hringir.) hún er að hugsa um í sætinu.

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn að hafa hljóð í salnum og gefa ræðumanni frið til að halda ræðu sína.)

Það eru nokkur veigamikil atriði sem hugsa þarf um sem ekki eru auðleyst. Það er ekki samkeppni á fjármálamarkaði, það hefur aldrei verið samkeppni á fjármálamarkaði á Íslandi og er ekki að sjá af þessari skýrslu að gerðar séu einhverjar tillögur um það með hvaða hætti hún gæti verið. Það þarf að skilja að viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson velti upp nokkrum aðferðum sem hugsanlegar væru til þess án þess að skilja algjörlega á milli. Þær er vert að skoða en ég held að þegar upp verður staðið verðum við að koma í veg fyrir að fjárfestingarbankar geti spilað með sparifé innstæðueigenda. Það verður bara að vera þannig.

Í fjármálakerfinu þarf að vera regluvarðað kerfi fyrir húsnæðislán. Það er ekki hægt að halda áfram eins og við erum að gera í dag, bankakerfið er með gylliboð með óverðtryggðum vöxtum til að ná til sín viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs þangað til það verður komið með nægilega marga inn í kerfi sín. Þá snýr það sér við og fer að hækka vextina á þessum óverðtryggðu lánum.

Slíkt þekkist ekki á húsnæðislánamörkuðum í siðuðum löndum en hér erum við að fara af stað með slíkt kerfi. Það þarf að vera samkeppni eða þök til dæmis á seðil- og innheimtugjöldum sem eru óhófleg. Slíkt næst með aukinni samkeppni en eins og áður sagði næst hún ekki nema með aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingarbanka og því að brjóta upp banka ef þeir eru orðnir þrír eða færri.

Skýrslan er því miður ekki nægilega afgerandi í tillögum sínum um þessi viðfangsefni. Við þurfum að hafa hér fjármálakerfi sem þjónar almenningi og fyrirtækjum en ekki öfugt. Völd fjármálageirans verður að minnka og það verður að setja skorður við stærð hans og búa þannig í haginn að eðlileg atvinnustarfsemi með raunverulegum arði verði í landinu en ekki fjármálafroðustarfsemi sem hrynur svo með reglulegu millibili. Slíkt er einfaldlega allt of dýrkeypt, það er óþarfi og þeirri stefnu eigum við að hafna.

Mér finnst það líka ofrausn, eins og fram hefur komið hjá ýmsum hér, að menn ætli sér að verða virkir þátttakendur í evrópskum fjármálamarkaði. Hér er 320 þús. manna þjóð með atvinnulíf og fjármálakerfi í samræmi við þann mannfjölda. Það er í rauninni óraunhæft að Íslendingar geti verið þátttakendur eða keppendur frá Íslandi inni á 500 milljóna manna markaði í Evrópu með allt það sem er í gangi þar, því miður. Við höfum slæma reynslu af ofrausn í ýmsum málum og við eigum að staldra við og velta því fyrir okkur hvað hægt er og hvað ekki er hægt.

Nýtt fjármálakerfi fyrir Ísland verður hins vegar aldrei stöðugt, og það er talað talsvert um stöðugleika í þessari skýrslu, nema með jafnræði lánveitenda og lántakenda, nema með sterkri neytendalöggjöf, nema með regluvörðuðum húsnæðislánamarkaði, því að óregluvarðaður húsnæðislánamarkaður sem keyrir á þeirri grunnþörf fólksins að þurfa að eiga þak yfir höfuðið mun einfaldlega fyrr eða síðar springa út í bólu. Við verðum aldrei með stöðugan fjármálamarkað nema með afnámi verðtryggingar fyrir utan langtímaskuldabréfaútgáfu ríkissjóðs.

Önnur atriði skipta að sjálfsögðu máli en þessi atriði þurfa að vera til staðar og þau þurfa að vera rétt ef við eigum einhvern tímann að geta byggt upp fjármálakerfi sem verður okkur til gagns til langs tíma.