140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

framtíðarskipan fjármálakerfis.

778. mál
[17:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þessa skýrslu. Ég vona að hún sé góður grunnur að málefnalegri umræðu um þessi mikilvægu mál. Eins og við heyrðum kannski á síðasta ræðumanni erum við enn svolítið föst í innihaldslitlum upphrópunum þegar kemur að þessum málum, en skýrslan sýnir einmitt það sem menn hefðu kannski átt að vita að bankakreppan — og hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir það — var og er alþjóðleg og því miður sér ekki fyrir endann á henni. Það er hins vegar áhugavert að sjá á bls. 17 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Góð fjárhagsstaða ríkissjóðs var frumforsenda þess að hann gat brugðist við hruni bankakerfisins …“

Það er áhugavert af því að menn tala stundum eins og allt hafi verið ómögulegt hér áður, sérstaklega ákveðin pólitísk öfl og ég man ekki eftir að þau pólitísku öfl sem eru núna í ríkisstjórn hafi stutt þá vegferð að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Reyndar var það svo að þau unnu gegn því og höfðu á því fyrirvara þó að þau orð væru ekki notuð.

Það er tilgangslítið að vera að tala um fortíðina en við eigum hins vegar að læra af henni. Það sem hefur vantað og við höfum ekki borið gæfu til á hv. þingi er að ræða þessi mál þannig að við værum að móta stefnu til framtíðar. Stefnuleysið á undanförnum missirum hefur kostað okkur og það kemur kannski skýrast fram í málefnum sparisjóðanna. Þar fóru menn af stað með háleit markmið en núna þremur árum eftir að sett voru lög um sparisjóði, nánar tiltekið um mitt sumarið 2009, erum við komin með nýtt frumvarp frá hæstv. ríkisstjórn sem í rauninni kollvarpar öllu því sem þar var gert. Það hefur lítið verið rætt en við sjáum að það hefur orðið gríðarleg samþjöppun á íslenskum fjármálamarkaði. Ef við skoðum þetta í alþjóðlegu samhengi er til nokkuð sem heitir samþjöppunarstuðull, þetta er rakið í skýrslunni, og fari hann yfir 1.800 stig er mikil samþjöppun.

Fyrir hrun var mikil samþjöppun en þá var þessi stuðull 2.000 stig. Hann er kominn upp í 3.000 stig núna, nærri tvöfalt það sem telst mikil samþjöppun. Þetta er áhugavert í ljósi þess að þrátt fyrir hinn mikla bankasamruna sem hér er og í ýmsum öðrum löndum er það niðurstaða, ef marka má þessa skýrslu, þorra þeirra fræðimanna sem hafa skoðað þessi mál að bankasamruni hafi ekki í för með sér aukna hagræðingu sem mér þykir mjög áhugavert.

Það kemur líka fram í skýrslunni að íslenska bankakerfið sé án efa of dýrt miðað við þann rekstur sem það er með. Sagt er að leiðin til að ná fram hagræðingu, og hún sé bara hafin að litlu leyti, sé tæknilegar umbætur, aukin sjálfvirkni, betri nýting mannauðs, endurskoðun útibúanets og aukin samvinna. Það sé hins vegar mikil hætta fólgin í því að leyfa fyrirtækjunum að vinna mikið saman, það sé hætta á að slíkt komi í veg fyrir samkeppni.

Okkur hefur ekki tekist að standa þannig að neytendavernd að sómi sé að, og því miður er nýlegt frumvarp, sem lagt hefur verið fram, um neytendalán þess eðlis að við þurfum að fara betur yfir það ef við ætlum að ganga þannig frá þeim málum, ég held að allir séu sammála um það. Við erum einnig, og það er rakið ágætlega í skýrslunni, með miklar aðgangshindranir að markaðnum og skýrasta leiðin til að koma í veg fyrir samkeppni eru miklar aðgangshindranir. Þar spilar auðvitað margt inn í. Eitt eru gjaldeyrishöftin sem eru mjög skaðleg en hafa kannski veitt fjármálastofnunum ákveðið skjól að undanförnu en það er mikið svikaskjól og við verðum að losa okkur út úr þeim vítahring sem gjaldeyrishöftin eru.

Hér eru raktar ágætlega nýjar alþjóðlegar reglur, Basel-reglurnar, sem miða að því að koma í veg fyrir kerfisvandann sem var til staðar og að hafa í rauninni alvöru eigið fé í bönkum. Þetta er auðvitað alþjóðlegt vandamál, en ég vek athygli á því að vandamálið er það stórt að þrátt fyrir hrunið sem varð 2008, þrátt fyrir allar þær breytingar sem gerðar hafa verið í Evrópusambandinu og annars staðar, féll stærsti banki Belgíu, Dexia, nokkrum vikum eftir að hann hafði farið í mun strangara álagspróf en þekktist fyrir bankahrun.

Ég get ekki, virðulegi forseti, farið héðan án þess að minnast á það sem ég hef mjög miklar áhyggjur af og ræddi við hæstv. ráðherra áðan í fyrirspurnatíma og það er innstæðutryggingakerfið. Það er öllum ljóst að það hentar ekki íslenskum aðstæðum. Kannski eru einu aðstæðurnar þar sem það hentar í Bandaríkjunum. Þar eru 7.400 fjármálastofnanir og langstærsti hluti þeirra eru tiltölulega litlar fjármálastofnanir og fjórar stærstu eru einungis með 25% af markaðnum. Við erum með 95% í þrem stofnunum og eina við hliðina sem er MP-banki með 2,3% af innlánum. Ef við förum þá leið að koma hér á innstæðutryggingakerfi samkvæmt þessari nýju tilskipun Evrópusambandsins, í drögunum eins og þau liggja fyrir, þar sem ríkið á að ábyrgjast — það eru tekin af öll tvímæli um það — 100 þúsund evrur á hverjum reikningi sem eru 16 millj. kr., þá erum við búin að ríkisvæða allt kerfið. Við verðum búin að setja allt saman á ábyrgð skattgreiðenda og þá er til lítils að vinna hér niður skuldir ríkissjóðs ef við setjum slíka ábyrgð á skattgreiðendur landsins.

Virðulegi forseti. Ég hefði svo sannarlega viljað hafa meiri tíma því að þetta er yfirgripsmikil skýrsla og margt sem við þurfum að ræða en það gefst væntanlega tækifæri til þess fyrr en seinna.