140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

framtíðarskipan fjármálakerfis.

778. mál
[18:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka skýrsluna eins og aðrir þingmenn sem hér hafa talað. Ég leyfi mér þó að vera ósammála þeim sem fullyrða að vandi Íslands muni leysast við það að ganga í Evrópusambandið.

Eitt sem mig langar til að benda á og vekja athygli þingmanna og Íslendinga á er að í dag eru reglurnar í rauninni þannig að bankarnir hirða hagnaðinn en almenningur tekur á sig tjónið. Það segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Umboðsvandinn milli viðskiptabanka og ríkissjóðs byggist á væntingum um stuðning hins opinbera ef bankinn stendur frammi fyrir eiginfjárvanda. Ef vel gengur fá eigendur bankans hagnaðinn, en ef illa gengur fá skattgreiðendur reikninginn þótt eigandinn tapi eigin fé sínu.“

Þetta eru reglurnar sem við höfum verið að kljást við á þessu kjörtímabili. Ég ætla að nefna til dæmis Icesave-málið sem er fyrst og fremst til komið af því að staðið hefur styrr um það hvort ríkisábyrgð sé á bak við innstæður í bönkum. Ísland á hvorki meira né minna en í dómsmáli við ESA þar sem deilt er um hvort ríkisábyrgð sé á því sem vantaði upp á þegar bankarnir féllu og var í innstæðutryggingarsjóði á þeim tíma. Nú stendur til innan Evrópusambandsins að hækka fjárhæðina á bak við hverja innstæðu úr um það bil 20 þúsund evrum í 100 þúsund evrur. Ég er ekki viss um að við eigum að fara í þá átt, svo ég segi það hreint út.

Hvað gerist ef bankar geta hirt hagnaðinn en látið tapið lenda á skattgreiðendum? Jú, þeir geta farið að lána án nægilegra veða. Þannig byrjaði kreppan í Bandaríkjunum með hinum svokölluðu undirmálslánum, þ.e. bankar fóru að lána þeim sem höfðu ekki veð fyrir eignum sínum.

Við skulum samt hafa eitt á hreinu. Það er stjórnvalda á hverjum tíma að ákveða hvort tryggingar eða ríkisábyrgð eru á bak við innstæður í bönkum og þau stjórnvöld sem nú ráða ríkjum vildu að ríkið tæki á sig fall bankanna og bæri þannig ábyrgð á óábyrgri útlánastefnu þeirra allra.

Það er líka annað sem mig langar að benda á, af því að við höfum rætt hér ítarlega og oft um fjármálakreppu, að það varð líka annars konar kreppa á Íslandi og það er hin svokallaða efnahagskreppa. Hún varð vegna hinnar svokölluðu útþenslustefnu ríkissjóðs. Hv. þm. Skúli Helgason kom hér upp og nefndi það að bankarnir hefðu verið einkavæddir á sínum tíma. Jú, vissulega, en hann gleymdi reyndar að minnast þess að einn banki var þegar einkavæddur eða í einkaeigu og það er sá banki sem féll fyrst eða Íslandsbanki. Ef við viljum koma böndum á þenslu og annað og hina svokölluðu sveifluhegðun, sem minnst var á í ræðu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, þá þurfum við að koma á aga í fjármálum ríkissjóðs. Það er gott að benda á að fara þurfi í ýmsar aðgerðir, og við sem erum í stjórnarandstöðu höfum bent á það frá upphafi hrunsins, en því miður er staðan sú að lítið (Forseti hringir.) hefur verið gert eins og þessi skýrsla kemur inn á; það er bent á vandann en lítið um aðgerðir.