140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

framtíðarskipan fjármálakerfis.

778. mál
[18:13]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Aðeins örfá orð af minni hálfu enda tíminn á þrotum. Ég vil þakka fyrir almennt jákvæða umfjöllun og góð orð í garð þessarar skýrslu. Ég vil nefna í fyrsta lagi að hér var komið inn á það og tekið undir af hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að segja mætti að fjármálastöðugleiki væri mikilvæg almannagæði en það má líka snúa þessu við, eins og sumir hafa gert í umræðunni, og nálgast það frá hinni hliðinni að það sé auðvitað óþolandi og óásættanlegt að áhættusækni og sveifluhegðun eða græðgi í þessu kerfi leiði með reglubundnu millibili til þess að viðskiptavinirnir eða skattborgararnir sitji uppi með tapið þegar illa gengur en hinir hirði gróðann á uppgangstímum.

Í öðru lagi hafa flestir með einum eða öðrum hætti vikið að spurningunni um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbankastarfsemi. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi breska módelið í þeim efnum en margir aðrir þingmenn viku að þessu sama. Mér telst svo til að einn eða fleiri talsmenn allra flokka sem tekið hafa þátt í umræðunni hafi í meira eða minna mæli lýst sig sammála því að fara þá leið. Því fagna ég, því að enginn má skilja orðalag skýrslunnar þannig að það sé lagst gegn því og það er ekki mín afstaða heldur þvert á móti, ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að þetta væri ráðlegt að gera.

Í þriðja lagi varðandi það sem menn hafa haft gaman af að vitna í á bls. 94, um þann möguleika að komast út úr óstöðugleika og verðtryggingu með því að gerast aðili að stærri efnahagsheild, þá bendi ég á það sem kemur aftan við og enginn af þeim sem vitnuðu í textann hafði fyrir að lesa en þar segir, með leyfi forseta:

„Um ákvarðanir um slíkar breytingar mun þjóðin öll vitaskuld eiga síðasta orðið — og að þeim er langur aðdragandi. Það er því nauðsynlegt að laga umgjörð fjármálastarfseminnar að ríkjandi skilyrðum …“

Með öðrum orðum, það er einmitt skýrt kveðið á um það að hvað sem verður með þessi mál breytir það engu um þörfina fyrir að taka á þessu miðað við aðstæður okkar hér og nú og það gildir um margt fleira sem hér hefur verið sagt og ég er sammála, svo sem eins og innstæðutryggingarmálin, að sjálfsögðu eru það íslenskar aðstæður og íslenskir hagsmunir sem eiga fyrst og fremst að stýra því hvaða leiðir við veljum í þeim efnum.