140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar.

Það var hugmyndin hjá fulltrúum stjórnlagaráðs að tillögur þeirra færu óbreyttar til þjóðarinnar til atkvæðagreiðslu og þar með var talið að búið væri að uppfylla það skilyrði að sem flestir kæmu að málinu og komast að hver vilji þjóðarinnar væri. Við skulum átta okkur á því að ríkisstjórnin guggnaði á því að fara með þetta beint í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess meðal annars að þessar tillögur hafa verið gagnrýndar svo mikið, að minnsta kosti hluti þeirra.

Ég er sammála þingmanninum um að það sem verið er að fara af stað með núna er illa unnið og ekki endanlegt plagg. Þess vegna væri svo mikilvægt — ég er að skoða hvort það þýði eitthvað með þann vonlausa meiri hluta sem starfar í þinginu — að fara fram með breytingartillögu á þessu máli sem mundi kveða á um að þegar þingið hefði fjallað um stjórnarskrána samhliða tillögum stjórnlagaráðs og smíðað frumvarp sem eitthvert vit væri í og stæðist þokkalega fyrir dómstólum yrði endanlegt plagg borið undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu í næstu alþingiskosningum. Eins og þingmaðurinn kom inn á þá útþynnir það þjóðaratkvæðagreiðslur eða íbúakosningar þegar fólk er hálfplatað á kjörstað og útþynnir þær það mikið að fólk hættir fyrir rest að nenna að fara á kjörstað af því að í fyrsta lagi veit það að ekki verður farið eftir niðurstöðunni vegna þess að kosningin er ráðgefandi og í öðru lagi vegna þess að það er ekki verið að kjósa um endanlegt plagg. Það er verið að leika einhvern millileik.

Mig langar að spyrja hv. þm. Illuga Gunnarsson hvað honum finnist um það (Forseti hringir.) að hér sé þetta kappsmál hæstv. forsætisráðherra komið á dagskrá þingsins (Forseti hringir.) þegar hún hefur boðað að hún verði ekki í þinginu næstu tvær vikur. Hvaða gildi hefur þetta mál þá fyrir ríkisstjórnina?