140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:46]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þjóðaratkvæðagreiðslu um nokkur álitamál þar sem framkvæmdarvaldið vill fá skorið úr um efni þess sem drög að nýrri stjórnarskrá geyma. Ég nefndi hér í ræðu um helgina í samhengi við það að ég var að tala um að umboð þeirra sem sátu eða voru kosnir á stjórnlagaþing upphaflega væri ekki mjög sterkt og nefndi þar sem dæmi að efsti maður hefði fengið 3% af atkvæðum kosningarbærra manna. Ég verð að biðjast afsökunar á þeirri vitleysu sem ég gerði þarna, þetta var ekki rétt farið með og einhvern veginn hafði þetta stimplast inn í hugann á mér. Það er því rétt að fara aðeins yfir hvernig kosning þetta var.

Það voru um 86 þús. manns sem kusu í þessari kosningu. Hver af þessum 86 þúsundum kaus 25 sinnum þannig að greidd atkvæði í þessari kosningu voru 2 millj. og 150 þúsund. Af þeim atkvæðum sem voru greidd þarna, ekki af öllum atkvæðum sem allir hefðu getað greitt, voru 1,3% greidd þeim efsta, eða hann fékk 1,3% atkvæða frá 28 þús. mönnum, svo þessu sé haldið rétt til haga.

Af kosningarbærum mönnum, ef maður reiknar þetta eins og ég taldi mig vera að tala um vegna þess að ég hafði einfaldlega tekið þessa tölu upp eftir einhverjum öðrum og hafði ekki farið í að reikna það sjálfur, væru þetta samkvæmt þeirri talningaraðferð í kringum 13% atkvæða kosningarbærra manna sem er stigsmunur en ekki eðlismunur á þeirri endurspeglun að þeir sem voru kosnir til stjórnlagaþings höfðu ákaflega veikt umboð.

Þetta var bara til að leiðrétta þessa klaufavillu sem ég gerði hér í ræðu og ég vona að engum hafi orðið alvarlega meint af.

Það sem mig langar að tala um það sem eftir lifir ræðutímans, þó að það sé stutt, mig langar aðeins til að opna á eitt hugðarefni sem ég mun tala ítarlega um síðar í kvöld og það er þetta að snöggbreyta stjórnarskrá eins og hér er verið að gera, þ.e. að taka stjórnarskrá lýðveldisríkis og endurskrifa hana algjörlega frá grunni. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnarskrár eigi að þróast hægt og bítandi með tímanum og að breytingar sem gerðar eru á stjórnarskrá, hvert einasta orð, verði að vera gríðarlega vel ígrundað. Það er algjörlega ljóst að með því að nota þá aðferð sem hér er verið að nota er verið að bjóða heim hættunni á að það séu mistök í grunnlögunum og að stjórnarskráin geti ekki þjónað sem þau grunnlög sem hún á að vera fyrir lýðræðisþjóð eins og Ísland við ákvörðun þess hvort brotið hafi verið á stjórnarskrárbundnum réttindum þegnanna eða ekki.

Ég mun tala betur um þetta í síðari ræðu en ég vara mjög við því að snöggbreyta um stjórnarskrá eins og margir hér virðast vilja og að þetta verði ígrundað mun betur og gert mun hægar. En með því er ég ekki að segja að ekki megi breyta stjórnarskránni. (Gripið fram í.) Ég er til dæmis þeirrar skoðunar að ákvæði um synjunarvald forseta þurfi að endurskoða, það þarf að setja inn einhvers konar auðlindaákvæði í stjórnarskrána o.fl.