140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að stjórnarskrá eigi að endurspegla einhvers konar sáttmála milli borgaranna og að stjórnarskrá eigi að þjóna sem grunnlög í þessum sáttmála. Með því að fara þá leið sem ríkjandi vald hefur kosið, þ.e. að gera þetta í slíkri ósátt sem verið er að gera þetta, er ég hræddur um að sú stjórnarskrá sem út úr því kemur geti ekki orðið langlíf, hún getur ekki orðið eitthvað sem við getum litið á sem sáttmála okkar á milli og sáttmála borgaranna heldur verður hún, þangað til henni verður væntanlega breytt aftur, alltaf bitbein milli ólíkra skoðana. Ég tel að það sé til mjög mikils að vinna að ná einhvers konar sátt um stjórnarskrá og að sem flestir geti sameinast um stjórnarskrá. Mér finnst ríkjandi valdhöfum hafa mistekist hrapallega að ná fram þessu grundvallarmarkmiði sem á að vera með stjórnarskrá. Meðal annars út af því leggst ég svo mjög gegn þessari afgreiðslu og þeim drögum sem liggja eftir stjórnlagaráð.