140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns áðan að hann var að fjalla um aðdragandann að stjórnlagaþinginu. Hann fór aðeins yfir það að menn sem þar voru kjörnir hefðu ekki fengið mjög sterkt umboð. Hann fór aðeins yfir atkvæðavægið enda var þetta ákaflega flókið kosningakerfi, ég held að allir hafi verið sammála um það. Svo misfórst ýmislegt í framkvæmdinni, enda var kosningin dæmd ógild, og það má eiginlega segja að í kjölfarið hafi þetta mál farið í afar óheppilegan farveg. Þeir sem vildu svo gjarnan að stjórnlagaþing hefði fengið umboð og að kosningin hefði heppnast vel ákváðu einhvern veginn að ýta því til hliðar að allt hefði farið úrskeiðis og settu meiri þrýsting á að flýta málinu. Vinnubrögðin hafa eiginlega verið með ólíkindum síðan.

Við sáum það á þeim spurningum sem við erum búin að ræða í þessari umræðu, þessum sem meiri hlutinn sendi frá sér, að landskjörstjórn breytti þeim eiginlega öllum. Engu að síður standa eftir mjög umdeilanlegar spurningar sem erfitt er að átta sig á hvað muni þýða.

Þingmaðurinn kom einnig inn á að það væri ekki gáfulegt að fara með svona breytingar á stjórnarskrá í snögga samsuðu, og ég ætla aðeins að koma inn á það á eftir, en í ljósi þess hver staða málsins er í dag langar mig að heyra hvað þingmaðurinn teldi eðlilegast að við gerðum núna við málið. Það er komin þessi tillaga frá meiri hlutanum. Á sama tíma er búið að ráða eina sjö sérfræðinga til að fara yfir málið. Hvert telur þingmaðurinn (Forseti hringir.) eðlilegasta verklagið héðan í frá?