140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spyr hér mjög mikilvægra spurninga en ég er alveg örugglega ekki rétti maðurinn til að svara því vegna þess að hvað varðar framkvæmd málsins og hvernig þetta er hugsað get ég litlu við það bætt sem áður hefur komið fram.

Ég horfi þannig á þetta, miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið af hálfu talsmanna meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að þarna eigi að vera um tvo aðskilda ferla að ræða; annars vegar þjóðaratkvæðagreiðslu sem verði fyrir 20. október, hún á að snúast annars vegar um tillögur stjórnlagaráðs eins og þær líta nú út óyfirfarnar, eins og þær komu frá stjórnlagaráði á síðasta ári, og svo einhverjar viðbótarspurningar eins og hv. þingmaður gat um. Óyfirförnu tillögurnar og viðbótarspurningarnar á sem sagt að kynna og ræða fram á haustið. Svo á að efna á til þjóðaratkvæðagreiðslu sem skilar einhverjum niðurstöðum. Ég veit ekki hvort hugsunin er að það verði í september eða október, í tillögunni segir bara að það verði fyrir 20. október.

En á sama tíma á að eiga sér stað sérfræðivinna þar sem þessir ágætu lögfræðingar og ef til vill einhverjir fleiri munu koma að því að lagfæra tillögur stjórnlagaráðs. Sá hópur mun síðan skila af sér í haust, sennilega um svipað leyti og þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram, einhverju öðru plaggi en þjóðaratkvæðagreiðslan snýst um. Hvernig sem á málin er litið held ég að menn muni standa uppi með dálítið ruglingsleg og misvísandi skilaboð í haust. Ég hef áhyggjur af því að þrætur manna næsta vetur muni að stórum hluta snúast um það að leggja (Forseti hringir.) eitthvert mat á óskýrar niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um óskýra hluti.