140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:56]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þær vangaveltur sem hv. þingmaður var með varðandi fyrirhugaðan starfshóp eða sérfræðingahóp, eða hvað kalla ber þann hóp, og að vinna eigi úr niðurstöðum þess hóps samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu. Það skýtur dálítið skökku við að það sé gert samhliða. Ég ætla að vera á sömu nótum og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sem benti á það áðan að það væri dálítið sérstakt að verið væri að vinna að þessu samhliða, þ.e. sérfræðingavinnunni og þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Af því að hv. þingmaður á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd langar mig að velta því upp við hann um hvað þessi þjóðaratkvæðagreiðsla snýst raunverulega, hver tilgangurinn er með því að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu núna þegar sérfræðihópurinn á að vera að störfum. Kann að vera að tilgangurinn sé af einhvers konar pólitískum toga? Kann það að tengjast á einhvern hátt viðræðum ríkisstjórnarinnar við Hreyfinguna og þeirri staðreynd að Hreyfingin sækist eftir því að komast í ríkisstjórn vegna þess að sá flokkur vill ekki fara í kosningar eins og sakir standa? Maður veltir því óneitanlega fyrir sér því að Hreyfingin hefur sagt það opinberlega að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verði að fara fram jafnvel þó að búið sé að benda á að þetta sé ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um endanlega stjórnarskrá og enn er það rökstutt með því að fara eigi fram sérfræðivinna þar sem farið verði yfir þetta.

Um hvað snýst þessi þjóðaratkvæðagreiðsla? Kann að vera að hún tengist á einhvern hátt (Forseti hringir.) því að Hreyfingin sé að reyna að komast í ríkisstjórn?