140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að ástæður þess að málið er lagt upp með þeim hætti sem gert er í dag séu fyrst og fremst pólitískar, það snúist ekki um málefnið sem slíkt. Ég held að það séu pólitískar ástæður fyrir því og ég veiti því athygli að þrýstingur á þjóðaratkvæðagreiðslu sem allra fyrst jókst mjög þegar samtöl byrjuðu milli forustumanna ríkisstjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar í kringum áramót. Þá má segja að málið hafi svolítið breytt um farveg vegna þess að fram að þeim tíma stóð ég alla vega í þeirri meiningu að ætlunin væri að yfirfara tillögur stjórnlagaráðs, fjalla um þær og eftir atvikum breyta því sem nauðsynlegt væri að breyta áður en efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu, vegna þess að það lá svo sem alltaf fyrir af hálfu meiri hlutans að á einhverju stigi máls mundi hann leggja til að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Ég stóð í þeirri meiningu að minnsta kosti fram undir eða fram yfir áramót að ætlunin væri að vinna að breytingum og lagfæringum á tillögum stjórnlagaráðs áður en farið væri í þjóðaratkvæðagreiðslu en það er frekar nýtilkomin hugmynd að þetta tvennt eigi að gerast á sama tíma. Eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason bendir á er það frekar sérkennilegt vegna þess að það þýðir í grunninn að á sama tíma og kallað er til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs einhvern tímann í haust, í september eða október, verða annaðhvort tilbúnar eða alveg við það að verða tilbúnar breytingartillögur frá hópi lögfræðinga sem eiga, eftir því sem mér skilst, að hafa frekar takmarkað umboð, en eins og ég reyndi að koma inn á í ræðu minni hlýtur vinna þeirra að leiða til breytinga sem geta í sumum tilvikum talist umtalsverðar.