140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta.

Það er mjög áhugavert sem fram kemur í máli hv. þingmanns að um það leyti sem þreifingar byrjuðu á milli ríkisstjórnarinnar og Hreyfingarinnar hafi þrýstingurinn á þjóðaratkvæðagreiðslu aukist og þá hafi í rauninni orðið stefnubreyting í starfi nefndarinnar sem fram að þeim tíma hafi unnið að drögum að þeim breytingum sem gera þyrfti á þeim tillögum sem komu frá stjórnlagaráði. Mig langar til að fá þingmanninn til að staðfesta það aftur að þetta hafi verið það sem hann skynjaði í því starfi sem fram fór innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Síðan langar mig að velta því upp við hv. þingmann hver raunverulegi tilgangurinn er með þjóðaratkvæðagreiðslu þegar fyrir liggur að nú á að fara að kjósa um drög sem liggja fyrir og nokkrar spurningar sem á að fá álit þjóðarinnar á. Hver er þá tilgangurinn með þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu þegar um gjörbreytt plagg verður að ræða eftir breytingarnar sem gerðar verða á því? Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar við erum komin í einhverja pólitíska leiki með stjórnarskrána eingöngu í þeim tilgangi að styrkja meiri hluta ríkisstjórnarinnar hverju sinni. Það blasir auðvitað við að ríkisstjórnin hefur mjög knappan meiri hluta á þingi eins og sakir standa og jafnvel eru þingmenn innan stjórnarliðsins sem ekki styðja hana. Hreyfingin býður núna að verja ríkisstjórnina vantrausti. Finnst hv. þingmanni það ekki mjög sérstakt og í raun alvarlegt að menn skuli vera komnir út í svona hrossakaup með stjórnarskrána?

Enginn mælir á móti því að stjórnarskránni sé breytt og að hugsanlega fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hana og annað í þeim dúr. En eru þetta ekki svolítið sérstök vinnubrögð þegar (Forseti hringir.) grundvallarplagg þjóðarinnar er annars vegar, það plagg sem allt byggir á í samfélaginu?