140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér ferli, hvernig tillögur stjórnlagaráðs að stjórnarskrá skuli bornar undir þjóðina. Mér finnst lágmark, af virðingu við stjórnarskrána og af virðingu við kjósendur, að upplýst sé um það hvað fólk á að fara að greiða atkvæði um. Það er lágmark.

Ég hef sagt það áður og ætla að endurtaka það, þó að ég sé ekki í málþófi, frú forseti, að mannréttindum má skipta í tvennt. Í fyrsta lagi eru það mannréttindi sem vernda borgarann, einstaklinginn, fyrir öðrum einstaklingum, hópum af einstaklingum og þar með talið sveitarfélögum og ríki. Þessi mannréttindi eru algild, þ.e. eins um alla jörð. Svo eru það mannréttindi þar sem einstaklingurinn á kröfu á aðra einstaklinga. Ég nefni sem dæmi framfærsluskyldu foreldra við barn, framfærsluskyldu sveitarfélaga við öryrkja og aldraða. Þau mannréttindi eru háð landamærum, þau eru ekki eins um allan heim. Efnahagsástandið er misjafnt og gefur stundum ekki tækifæri til þess að gera neitt. Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að hafa mannréttindin í tveim köflum og ég mundi vilja ganga lengra, ég mundi vilja hafa í þriðja kaflanum undantekningar frá þeim mannréttindum sem eru í fyrsta og öðrum kafla.

Þegar maður les til dæmis 2. mgr. 14. gr. þessara draga stendur, með leyfi forseta:

„Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.“

Þarna hafa undantekningarnar tekið yfir. Undantekningarnar eru aðalatriðið en ekki mannréttindin sjálf. Ég mundi vilja hafa mannréttindin klippt og skorin: Ekki má beita ritskoðun eða takmarka tjáningarfrelsi okkar. Undantekningarnar verði síðan í sérkafla. Þar er hægt að setja almenn skilyrði um það að undantekningar skuli alltaf vera samkvæmt lögum.

Mannréttindi mín geta rekist á mannréttindi annars. Til dæmis ef Jón stelur frá Gunnu, þá er Jón settur í fangelsi, þ.e. mannréttindi hans um frelsi eru rofin vegna þess að hann braut mannréttindi á Gunnu. Það er heimilt að brjóta mannréttindi á manni ef hann hefur brotið mannréttindi á einhverjum einstaklingi og þá þarf að refsa honum.

Uppbygging stjórnarskrárinnar, í tillögum stjórnlagaráðs, er í tíu köflum. Fyrst eru aðfaraorð, mér finnst það allt í lagi. Í I. kafla er talað um undirstöður, það er ríkið. Mér finnst ríkið ekki vera undirstaða. Undirstaðan er mannréttindin sjálf og þau koma fram í II. kafla. Í þeim kafla er reyndar talað um mannréttindi og náttúru þannig að náttúra er orðin einhver sjálfstæð persóna sem þarf að vernda í stjórnarskrá.

Í næstu köflum er talað um Alþingi, forseta Íslands, ráðherra og ríkisstjórn og dómsvald. Forsetinn er sem sagt nefndur sérstaklega inni í þrískiptingu valdsins. Ég hef efasemdir um það. Ég hefði viljað hafa hann undir framkvæmdarvaldinu, þar á hann eiginlega heima eða hjá löggjafarvaldinu, eða sleppa því að hafa forseta. Það hef ég reyndar lagt til annars staðar.

Síðan er talað um sveitarfélög og utanríkismál. Utanríkismálin eru höfð í sérkafla í drögum að stjórnarskránni og lokaákvæði. Ég hefði viljað hafa uppbygginguna aðra og mér finnst þurfa að ræða það. Ég hefði viljað hafa formála, mannréttindi af fyrstu og annarri gráðu, undantekningar frá þeim og gildissvið stjórnarskrárinnar. Hvar gildir hún? Ég sé að tíma mínum er að verða lokið þannig að í næstu ræðu mun ég fara yfir gildissvið stjórnarskrárinnar, til hverra hún nær. Síðan kæmi kafli um stofnun ríkis til að tryggja mannréttindi og því er þrískipt, í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Síðan hefði ég viljað hafa stjórnsýsluna, kirkjuskipan og ýmislegt. Svo, mikilvægast af öllu, ákvæði um hvernig breyta megi stjórnarskrá. Eins og það ákvæði lítur út frá stjórnlagaráði er breytingin afskaplega auðveld. Ég vara eindregið við slíku ákvæði. Ég get ekki rætt það núna en mun fara yfir það í einhverri af síðari ræðum mínum.