140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Ég vil taka sterkar til orða en hv. þm. Pétur H. Blöndal. Þetta er ekki útþynning á stjórnarskránni, það eru hrein skemmdarverk á stjórnarskránni að leggja til að dýr séu vernduð samkvæmt íslensku stjórnarskránni og einnig fjölmiðlar. Þetta á ekki heima í stjórnarskrá nokkurs ríkis. Hv. þingmaður fór enda yfir það að geitungur flokkast til dýra og hver er þá réttarstaða hv. þingmanns sem borgara ef hann er kærður til Hæstaréttar fyrir það að drepa geitung? Það sjá allir að þessar tillögur eru komnar langt út fyrir öll velsæmismörk, þær tillögur sem ég hef nefnt hér og eru náttúrlega fáránlegastar í þessum drögum. Þær eru dæmi um það sem hefur ratað þarna inn. Síðan fjallar hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, um það í ræðustól Alþingis að það eigi bara að fara í lagatæknilegan yfirlestur á drögunum. Hvar byrjar lagatæknilegur yfirlestur og hvenær lýkur honum? Væri það til dæmis ekki meiri háttar breyting á tillögum stjórnlagaráðs ef lögfræðiteymið mundi hreinlega fella út þessa grein um dýr? Væri það ekki veigamikil breyting? Ég mundi halda það. En blekkingin af hálfu meiri hlutans er sú að þetta fólk eigi bara að lesa drögin yfir og gera einhverjar lítils háttar breytingar og smávægilegar orðalagsbreytingar. Nú þegar hefur verið upplýst að teymið á að skrifa nýja greinargerð með frumvarpsdrögunum. Er það ekki meiri háttar breyting á frumvarpi þegar skrifa þarf nýja greinargerð? Samkvæmt dómsmálum er fyrst farið í lagatexta og finnist ekki efni deilumálsins í lagatextanum er leitað í greinargerð til að finna út hvað löggjafinn meinti með lagasetningunni. Það eru meiri háttar breytingar í farvatninu á frumvarpsdrögunum (Forseti hringir.) og svo er verið að telja fólki trú um að hægt verði að greiða atkvæði í október um tillögu stjórnlagaráðs. Þetta er bara bull.