140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni og hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þegar þeir sögðu að stjórnarskráin væri eitt mikilvægasta plagg okkar Íslendinga. Það verður að vanda mjög til verka þegar við gerum breytingar á stjórnarskránni. Það er ekki að ástæðulausu sem breytingar á stjórnarskrá þurfa að vinnast á fleiri en einu kjörtímabili, það má ekkert fara úrskeiðis. Það má ekki koma upp óvissa í framhaldinu. Það má ekkert vera óskýrt.

Varðandi breytingar á stjórnarskránni núna og hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málinu sýnir algjört virðingarleysi við stjórnarskrá Íslands. Fyrst er stjórnlagaþing kosið í kosningu, gott og vel. Eftir að Hæstiréttur dæmdi þá kosningu ógilda ákvað meiri hluti Alþingis að grípa inn í dóma Hæstaréttar og skipa þessa einstaklinga í stjórnlagaráð. Þá var fyrsta óheillaskrefið stigið. Það er ekki góð byrjun á breytingu á stjórnarskrá að Alþingi gangi inn í dóma Hæstaréttar. Eðlilegast á þeim tímapunkti, ef menn hefðu viljað fara af stað með stjórnlagaþing á nýjan leik, hefði verið að endurtaka kosninguna og laga þá meinbugi sem Hæstiréttur fann að í úrskurði sínum.

Niðurstöður stjórnlagaráðs ræðum við hér en þær hafa verið að velkjast um í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í vetur. Síðan er ætlunin að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu með þessar tillögur. Þær eru þó ekki fullbúnar eins og kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni áðan. Þessar tillögur eiga núna að fara til sérfræðingahóps sem á að vinna samhliða þjóðaratkvæðagreiðslunni þannig að niðurstöður sérfræðingahópsins koma á sama tíma og niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar og nokkrar spurningar sem eru spurningavagn ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Það eru þessi vinnubrögð sem sýna algjöra vanvirðingu við stjórnarskrána.

Það er á engan hátt hægt að segja að þeir sem vilji haga vinnubrögðum með öðrum hætti við breytingar á stjórnarskrá séu mótfallnir því að endurskoða stjórnarskrána. Stjórnarskrá er ekki plagg sem pólitískt kjörin ríkisstjórn á að koma pólitísku áherslum sínum inn í hverju sinni. Stjórnarskráin á að vera algjörlega yfir það hafin. Ef eitthvað á að vera hafið yfir pólitísk átök er það stjórnarskráin því að allir Íslendingar þurfa að lifa við stjórnarskrána. Eins og ég sagði áðan þá er ekki að ástæðulausu sem hún er þannig uppbyggð að breytingar á henni þarf að vinna á fleiri en einu kjörtímabili.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara fram með þennan spurningavagn og spyrja þjóðina nokkurra spurninga. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvað valdi því að þær spurningar sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur til hafi orðið fyrir valinu. Maður veltir fyrir sér hvort ekki væri æskilegt ef menn ætla á annað borð að leggja fram þennan spurningavagn að spyrja fleiri spurninga. Ég hef ásamt hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni sett fram hugmyndir að nokkrum spurningum sem væri fróðlegt að fá afstöðu þjóðarinnar til. Ég hef gert grein fyrir þeim hérna í ræðum og ætla að gera það áfram.

Ein spurningin sem við leggjum til að þjóðin verði spurð að er svohljóðandi:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði sem kveður á um jafna dreifingu útgjalda ríkisins milli landshluta?“

Þrátt fyrir að þetta sé nokkurs konar skoðanakönnun væri mjög fróðlegt að vita hvort þjóðin vildi setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá. Mér finnst sjálfsagt að spyrja að því ef menn ætla á annað borð að vera með svona spurningavagn. Ég veit ekki hver niðurstaðan yrði úr slíkri könnun. Það hefur óneitanlega vakið athygli og þá sérstaklega í tíð núverandi ríkisstjórnar hve útgjaldaskiptingin hefur verið misjöfn á milli landshluta. Við höfum horft upp á að ákveðnir landshlutar hafa mátt þola meiri niðurskurð, t.d. til heilbrigðis- og velferðarmála. Landsbyggðin glímir við sívaxandi erfiðleika. Mér fyndist sjálfsagt að velta þessari spurningu upp í þessum spurningavagni líkt og öðrum því að þetta er ekkert annað en spurningavagn þar sem verið er að leita ráðgjafar.

Frú forseti. Tími minn dugar ekki. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá til að geta gert grein fyrir fleiri breytingartillögum.