140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir hans innlegg í þetta mál sem ég tel mikilvægt að við ræðum vel. Ég held í sjálfu sér að ekki sé annað hægt en taka undir með hv. þingmanni að ýmislegt geti farið á svona spurningavagn. Það er síðan aðferðafræðin sem við deilum um, þ.e. hvernig við viljum draga fram þær áherslur sem við ætlum að hafa í stjórnarskránni til lengri tíma litið.

Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni varðandi stjórnarskrána sem slíka, að hún sé plagg sem eigi að vera hafið yfir pólitískt dægurþras. Því miður hefur ríkisstjórninni undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar tekist að draga stjórnarskrána inn á plan sem maður hefði aldrei óskað að yrði gert. Það er í rauninni merkilegt að atlagan að stjórnarskránni verði einn af þeim bautasteinum sem liggja eftir þessa ríkisstjórn, þ.e. að geta ekki náð sátt við alla stjórnmálaflokka og flest öfl í samfélaginu um það að breyta stjórnarskránni. Við höfum sagt að við viljum breyta stjórnarskránni.

Talandi um spurningavagninn. Það sem ég vil spyrja hv. þingmann að eru margar athyglisverðar spurningar til viðbótar sem hafa verið settar fram af ýmsum þingmönnum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, aðallega í stjórnarandstöðu, og þeir vilja bæta við vagninn. Er hann ekki hræddur um það hvernig niðurstöðurnar í svona skoðanakönnun verða túlkaðar? Ef við skoðum tillögur meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sérstaklega fyrsta spurningin sem mér hefur verið nokkuð tíðrætt um, er hv. þingmaður þá ekki hræddur um að stjórnmálamenn, sérstaklega þeir stjórnmálamenn sem sitja í ríkisstjórn og þeir stjórnmálamenn sem styðja ríkisstjórnina, muni notfæra sér þær niðurstöður og túlka sér í hag? Þetta eru ekki beint, svo að ég sletti, frú forseti, konkret spurningar. Er hv. þingmaður ekki hræddur um hversu margar spurningar í spurningavagninum (Forseti hringir.) verði mistúlkaðar eða túlkaðar eftir eigin geðþótta?