140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil strax undirstrika að ég skil heils hugar hvað hv. þingmaður er að segja. Fyrst verið er að setja af stað svona spurningavagn er eðlilegt að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar reyni að leggja sig fram í því efni að ná fram raunverulegum vilja þjóðarinnar. Það er bara ekki það sem þetta mál snýst um. Menn geta metið niðurstöðuna, sérstaklega út frá fyrstu spurningunni. Spurningin veitir takmarkaða leiðsögn og síðan verður sú leiðsögn sem kemur frá kjósendum mjög sveigjanleg og teygjanleg. Það er mjög skiljanlegt fyrst menn skynja að tilgangur og markmið hjá stjórnarflokkunum, Vinstri grænum og Samfylkingunni, ásamt Hreyfingunni sé að leggja spurningavagn fyrir þjóðina í kringum 20. október, að mig minnir, þá er ekkert óeðlilegt að fleiri þingmenn vilji setja spurningar í þann vagn.

Ég hef til að mynda lagt fram breytingartillögu í ljósi þess að ef þær tillögur sem liggja fyrir af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ná fram að ganga gagnvart þinginu þá verður hlutverk þingsins minna en áður. Ég mótmæli því hvað menn hafa reynt að draga niður vægi þingsins í gegnum tíðina, síðustu missirin og árin. Ég held þetta sé röng nálgun. Þingið hefur haft mikil völd. Það er að mínu mati virðingarverðasta og mikilvægasta stofnun landsins. Með þeim tillögum sem liggja fyrir er ljóst að verið er að draga úr hlutverki þingsins og færa það í auknum mæli til forseta. Það er reyndar efnisleg umræða sem við eigum alveg eftir að taka og höfum ekki fengið að taka við hv. þingmenn í stjórnarmeirihlutanum.

Ég vil gjarnan fá afstöðu hv. þingmanns varðandi þá breytingartillögu sem ég hef lagt fram um fækkun (Forseti hringir.) þingmanna.