140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hreyfði í lok máls síns í andsvari við mjög mikilvægu efni, þ.e. aðgreiningu þrískiptingar ríkisvaldsins og þá sérstaklega mörkunum á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Hann var með miklar vangaveltur rétt í lok máls síns.

Við höfum í rauninni ekki fengið tækifæri til að ræða umbúðalaust á Alþingi um þingsályktunartillöguna um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Að mínu mati verður atkvæðagreiðslan í haust skoðanakönnun sem ríkisstjórnin ætlar að standa fyrir, skoðanakönnun sem mundi falla á öllum prófum hjá sérfræðingum er standa í skoðanakannanagerð, en það er önnur saga. Við höfum ekki fengið svigrúm eða ráðrúm til að ræða til að mynda við þá þingmenn í stjórnarmeirihlutanum sem hvað harðast hafa gengið fram í baráttu fyrir nýrri stjórnarskrá. Það er reyndar svolítið kúnstugt að upplifa það, sérstaklega af hálfu Samfylkingarinnar þar sem margir vilja alveg nýja stjórnarskrá. Þetta er samt sami flokkurinn og stóð í mörg ár í vegi fyrir því að stjórnarskránni yrði breytt á fyrsta áratug þessarar aldar.

Það lá ljóst fyrir eftir að forsetinn hafði beitt málskotsrétti sínum vegna fjölmiðlafrumvarpsins á sínum tíma að menn vildu ræða breytingar á forsetaembættinu. Samfylkingin vildi ekki hlusta á neinar slíkar tillögur í þeim efnum. Þess vegna ákváðu aðrir flokkar í ljósi hefðarinnar og reynslunnar að reyna frekar að tala saman, ná sátt og ákveðinni framtíðarsýn yfir lengri tíma en bara til fjögurra ára um það hvernig stjórnarskrá við vildum búa við.

Mér er tjáð að innan nefndarinnar hefði verið stutt í það að menn næðu saman og ég efast ekki um að menn mundu ná betur saman núna ef Samfylkingin hefði áttað sig á mikilvægi þess að setjast niður og ræða það hvernig forsetaembætti við viljum sjá til lengri tíma. Þetta hef ég reyndar farið yfir áður og mun alltaf ræða af og til.

Það sem hefur meðal annars komið fram í umræðunni er að þær spurningar sem hafa verið settar fram eru óljósar og matskenndar, þá helst fyrsta spurningin en ekki síður sú spurning sem var komið inn á hér áðan varðandi auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Við sjálfstæðismenn og fyrrum forustumenn flokksins höfum sett fram tillögu í þá veru hvernig hægt væri að setja inn auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það hefur komið skýrt fram á landsfundi okkar sjálfstæðismanna, og eins og ég gat um hafa forustumenn flokksins tekið undir það, að setja skuli auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Hvað þýðir það? Sú umræða er líka að mörgu leyti eftir, þ.e. hvernig við ætlum að orða slíkt ákvæði.

Eins og spurningin um auðlindaákvæðið er orðuð í tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir mér hugur að þar sé í rauninni verið að koma bakdyramegin að því að kollsteypa því grundvallarskipulagi sem íslenskt samfélag hefur búið við alveg síðan 874 eða við stofnun Alþingis frá 930. Þá á ég við eignarréttinn.

Hvernig ætla menn að skilgreina eignarréttinn? Er þetta tæki fyrir þá sem hvað mest hafa hamast í bændum og fólki sem hefur átt jarðir, ræktað þær o.s.frv. til að umbylta því þjóðskipulagi sem við höfum búið við?

Ég set sérstakan fyrirvara við þessa spurningu því að ég er hrædd um að hún verði notuð í þeim tilgangi að umbreyta þeirri grein stjórnarskrárinnar sem er afar mikilvæg og byggir á eignarréttinum.

Ég hef líka komið inn á það er tengist þjóðkirkjunni á Íslandi. Þrátt fyrir að það sé á stefnuskrá Vinstri grænna að aðskilja algerlega ríki og kirkju hefur ekki einn þingmaður Vinstri grænna komið upp og farið í samræður við okkur um hvað það þýðir. Þetta er á stefnuskrá þeirra. Þessi spurning virðist hafa verið sett þarna inn til að hægt sé að haka við atriði á ákveðnum lista. Ég hef ekki getað fengið stjórnarþingmenn til að ræða hvaða þýðingu það hefur ef við breytum algjörlega kirkjuskipaninni (Forseti hringir.) hér á landi. Hvað þýðir það fyrir samfélag okkar? Þýðir það um leið afneitun á því að við byggjum (Forseti hringir.) að grunni til á kristinni siðfræði?